Hlutabréf lækkuðu örlítið í Evrópu í dag og lækkaði FTSEurofirst 300 vísitalan um 0,1%. Þó varð hækkun á einstaka mörkuðum.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,1% og í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 0,3%.

Þá hækkaði DAX vísitalan í Frankfurt um 0,3% og CAC 40 vísitalan í París um 0,5%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 0,9% en í Osló lækkaði OBX vísitalan um 0,4% eftir að hafa hækkað í byrjun dags.

Reuters fréttastofan segir lækkun dagsins stafa af neikvæðum tölum af smásölu í Bandaríkjunum, hækkandi verðbólgu í Bretlandi auk þess sem fjárfestar hafi áhyggjur af frekari vandræðagangi á fjármálamörkuðum.

Stærsti viðskiptabanki Frakklands, Credit Agricole lækkaði um 5,6% eftir að hafa tilkynnt um að bankinn hygðist auka hlutafé sitt um 5,9 milljarða evra í kjölfar mikilla afskrifta.

Þálækkuðu orkufyrirtæki einnig í dag en olíuverð hefur verið í kringum 124 dali í dag eftir að hafa verið rúmlega 126 dalir í gær. Shell lækkaði um 1,2% og BG Group um 3,7% svo dæmi séu tekin.