Hlutabréf lækkuðu almennt í Kauphöllum Asíu í dag og það voru bílaframleiðendurnir Toyota og Honda sem leiddu lækkunina, að því er segir á Bloomberg. Ástæðan var sögð hækkun jensins, sem náði sjö vikna hámarki og kom illa við sölu japanskra bílaframleiðenda erlendis. Toyota hefur ekki verið lægri frá því í júní 2006.

China Mobile lækkaði annan daginn í röð eftir tilkynningu um að fyrirtækið hefði hætt viðræðum við Apple um sölu á iPhone í Kína. Kauphallirnar í Singapúr og Hong Kong lækkuðu mikið þar sem fjárfestar höfðu áhyggjur af minni viðskiptum vegna minni vaxtar í efnahagslífinu.

Hækkun í Tævan

Nikkei hlutabréfavísitalan í Japan lækkaði um 1% og fór niður fyrir 14.000 stigin í fyrsta sinn frá því í nóvember 2005. Meðal helstu vísitalna í Asíu var Taiex vísitalan í Tævan sú eina sem hækkaði. Hækkunin í Tævan sl. tvo daga er sú mesta frá því í maí 2004. Að sögn Bloomberg eru væntingar um að fjármálafyrirtækjum verði leyft að hefja starfsemi á meginlandi Kína eftir að stjórnarandstaðan á Tævan sigraði þingkosningar með yfirburðum.