Dagana 10.-31. október síðastliðin fór fram póstkosning hjá Lífeyrissjóði lækna um tillögu um sameiningu sjóðsins við Almenna lífeyrissjóðsins. Atkvæði voru talin síðastliðin föstudag og samþykktu læknar sameininguna. Síðar í nóvember mun tillaga um sameiningu við Lífeyrissjóð lækna verða borin upp á sjóðfélagafundi hjá Almenna lífeyrissjóðnum.

Á kjörskrá voru allir sjóðfélagar sem áttu réttindi í sjóðnum um síðustu áramót, alls 1805. Atkvæði voru talin s.l. föstudag. Alls greiddu 451 sjóðfélagi atkvæði og var niðurstaða kosninganna þessi:

Samþykktu tillögu um sameiningu 327

Höfnuðu tillögu um sameiningu 103

Auðir og ógildir 21

Samtals 451

Tillaga um sameiningu var því samþykkt af sjóðfélögum Lífeyrissjóðs lækna.

Ef af sameiningu verður, sem nú er mun líklegra en áður, munu eignir hins sameiginlega lífeyrissjóðs nema um 52 milljörðum króna, ef miðað er við eignastöðu um síðustu áramót. Skipar það sjóðnum í 5. sæti í röð lífeyrissjóða eftir stærð.