Framtakssjóðurinn Levine Leichtman Capital Partners (LLCP) hefur keypt meirihluta hlutafjár Creditinfo Group, móðurfélags Creditinfo á Íslandi. Creditinfo var stofnað á Íslandi 1997 og hjá fyrirtækinu starfa rúmlega 400 manns í yfir 30 starfsstöðvum um allan heim. Í fréttatilkynningu þar sem greint er frá kaupunum segir að LLCP komi til með að styðja við áframhaldandi vöxt og starfsemi Creditinfo Group á alþjóðavettvangi.

„Aðkoma LLCP er enn einn merkur áfangi í vexti Creditinfo, sem leiðandi fyrirtækis á heimsvísu við miðlun fjárhags- og viðskiptaupplýsinga til ákvarðanatöku. Stöðug og vaxandi eftirspurn er eftir lausnum og greiningartólum Creditinfo. Með nýrri skipan í hluthafahópi Creditinfo fæst aukinn drifkraftur og ný stefna í vaxtaráætlanir fyrirtækisins um leið og samfellu er viðhaldið í rekstrinum, en Reynir Grétarsson, stofnandi Creditinfo, heldur sæti í stjórn og er jafnframt annar stærsti hluthafi félagsins. Paul Randall, sem gekk til liðs við Creditinfo árið 2007, leiðir fyrirtækið í næsta vaxtarfasa sem nýráðinn forstjóri samstæðunnar og kemur til með að vinna náið með Reyni og LLCP. Stjórnendahópur og stefna Creditinfo á Íslandi er óbreytt,“ segir í tilkynningunni.

„Salan endurspeglar trú LLCP á stefnu Creditinfo, að greiða aðgengi einstaklinga og fyrirtækja að lánsfé og annarri fyrirgreiðslu," segir Paul Randall, forstjóri Creditinfo Group. „Með aðkomu nýs, reynslumikils og kröftugs fjárfestis, sem styður við markaðssókn og vöxt fyrirtækisins, verður mögulegt að styrkja enn frekar vöruframboð okkar á sviði áhættugreiningar og fjártækni. Einstök staða Creditinfo á bæði þróuðum mörkuðum og nýmörkuðum, sem byggir á traustri miðlun upplýsinga og nýjustu tækni, rennir stoðum undir miklar væntingar til framtíðarinnar og umtalsverða vaxtarmöguleika."

Eric Nobel, framkvæmdastóri hjá LLCP, segir spennandi fyrir sjóðinn að styðja við starfsemi Creditinfo og áframhaldandi vöxt fyrirtækisins. „Umtalsverð reynsla LLCP af fjárfestingum í fyrirtækjum um heim allan­ gerir Creditinfo kleift að tryggja enn frekar stöðu sína sem leiðtogi á sviði áhættugreiningar og fjártækni og stuðning við viðskiptavini á heimsvísu," segir hann.

„Við hlökkum mikið til að vinna með Creditinfo og styðja við vaxtaráætlanir félagsins," bætir David Cowan, yfirframkvæmdastjóri hjá LLCP, við. „Að okkar mati er staða Credit­info einstök og við höfum fulla trú á áframhaldandi velgengni fyrirtækisins."

„Creditinfo veitir mikilvæga þjónustu á íslenskum lánamarkaði við miðlun fjárhagsupplýsinga, sem er forsenda bæði ábyrgra lánveitinga og lántöku," segir Brynja Baldursdóttir, framkvæmda­stjóri Creditinfo á Íslandi. „Aðkoma öflugs fjárfestis í eigendahóp fyrirtækisins eflir starfsemi okkar og er bakland til að efla enn vöruframboð okkar og náið samstarf við viðskiptavini út um allan heim, um leið og hún styður við áframhaldandi starfsemi og þá áherslu sem lögð er á að tryggja góða þjónustu á heimamarkaði."