Laganefnd Lögmannafélags Íslands telur ákveðna þversögn felast í því að gera efnisbreytingar á stjórnarskránni og á sama tíma koma á fót stjórnlagaþingi sem á að semja nýja stjórnarskrá.

Þetta kemur fram í erindi sem Lögmannafélagið hefur skilað sérnefnd um stjórnarskrármál en félagið segir telur einnig vandséð að breytingar, sem snúa að ákvæði um auðlindamál annars vegar og ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur hins vegar, geti haft það mikið gildi á meðan stjórnlagaþing er að störfum en samkvæmt frumvarpinu á stjórnlagaþing að ljúka störfum eigi síðar en 17. júní 2011.

Þá segir Lögmannafélagið ljóst að sá tími sé í sjálfu sér ekki mjög langur miðað við efni ákvæðanna sem um ræðir.

„Að mati laganefndar eru þær breytingar á stjórnarskránni sem boðaðar eru með frumvarpinu í raun grundvallarbreytingar,“ segir í erindinu.

„Laganefnd áréttar mikilvægi þess að allar breytingar á stjórnarskránni séu gerðar að vel athuguðu máli og í mikilli sátt allra aðila, ekki síst þegar um grundvallarbreytingu er að ræða. Er það afstaða laganefndar að framangreindar breytingar þurfi frekari athugunar við og leggst nefndin af þeim sökum gegn samþykkt frumvarpsins eins og það er lagt fyrir.“