Lóa Bára Magnúsdóttir hefur verið ráðin Markaðsstjóri hjá Heimstaden á Íslandi. Lóa Bára snéri nýlega aftur til Íslands eftir 11 ára dvöl í Noregi. Þar stýrði hún sterkum vörumerkjum á norska dagvörumarkaðnum; sinnti vöruþróun, markaðssamskiptum og stefnumótun hjá neytendavörufyrirtækjunum Orkla og Cloetta.

Lóa er með BSc gráðu í Viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og MA í Alþjóðamarkaðsfræði frá European Business School London.

„Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni. Heimstaden er félag með skýr gildi, þar sem ábyrgð, sjálfbærni og þjónusta er ráðandi. Ég þakka traustið og er stolt og glöð að ganga til liðs við teymið og taka þátt í vexti Heimstaden á Íslandi," segir Lóa Bára í tilkynningu Heimstaden um ráðninguna.

Í tilkynningunni kemur fram að Heimstaden sé leiðandi evrópskt leigufélag með framtíðarsýn um að einfalda og bæta líf viðskiptavina með vinalegu húsnæði, „Friendly Homes". Metnaður Heimstaden snýr að því að vaxa á ábyrgan og sjálfbæran hátt, fjárfesta í fasteignum til langs tíma og bjóða öruggan kost á leigumarkaði.