Vesturbyggð og Icelandic Sea Minerals, fyrirtækið sem hyggst reisa kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal, hafa náð samkomulagi um leigu á lóð undir verksmiðjuna. Í frétt Bæjarins besta á Ísafirði kemur fram að samningaviðræður um lóðina hafa staðið undanfarna mánuði og var samningurinn lagður fyrir bæjarráð Vesturbyggðar í síðustu viku.

Þar kemur fram að bæjarráð fagnaði því að náðst hefðu samningar á milli aðila og telur ráðið að ásættanlegt leiguverð hafi fengist fyrir lóðina og leggur því til við bæjarstjórn að samningurinn verði samþykktur. Undirbúningur að gerð kalkþörungaverksmiðju er nú í fullum gangi á Bíldudal. Gerð lóðar og hafnar hafa staðið yfir í vetur og í vor hefst bygging verksmiðjunnar. Áætlað er að vinnsla hefjist á næsta ári segir í frétt Bæjarins besta.