Leiðtogar í Asíu hafa á undanförnum árum ráðist í miklar hernaðarfjárfestingar. Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, hefur til að mynda lagt fram áætlun sem felur í sér umtalsverða endurnýjun á vopnabúri þjóðarinnar. Áætlað er að Indverjar muni eyða 150 milljörðum Bandaríkjadala í vopn á næstu árum.

Lockheed Martin, einn stærsti vopnaframleiðandi heims, hefur fundið fyrir þessum aukna áhuga. Fyrirtækið íhugar núna að flytja hluta af framleiðslu sinni til Indlands, einfaldlega til þess að geta annað eftirspurn. Með því að flytja hluta af framleiðslunni til Indlands myndi fyrirtækið að sjálfsögðu gera framleiðsluna arðbærari.

Á undanförnum árum hafa bandarísk yfirvöld dregið úr framlögum til vopnaframleiðenda og því hafa fyrirtækin ráðist í sókn á nýmörkuðum. 24% af viðskiptum stærstu vopnaframleiðenda Bandaríkjanna eru nú við aðrar þjóðir. Árið 2009 nam sú tala einungis 16%. Tekjur þessara fyrirtækja hafa lækkað á bilinu 2 til 3 prósent á heimamarkaði.

Fyrirtækið hefur nú klárað framleiðslu á nýrri herþotu, sem er ein sú tæknilegasta frá upphafi. Þotan, sem gengur undir nafninu F-35 er afar umdeild, enda hefur hún sogað að sér mikla opinbera fjármuni. Áhugi fyrir flugvélinni hefur þó verið mikill, enda hrannast inn pantanir.

Gengi Lockheed Martin hefur hækkað um nær 240% á síðustu fimm árum. Hver hlutur fæst nú á u.þ.b. 243 dali.