Guðrún Ragna Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri Atlantsolíu, segir að uppbygging fyrirtækisins hafi verið markviss og stöðug. Fyrsta bensínstöðin undir merkjum Atantsolíu var opnuð í lok árs 2003.

Atlantsolía hefur hægt og rólega verið að fjölga stöðvum og reyna að bæta dreifinetið. Guðrún segir nauðsynlegt að þétta netið betur hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu en félagið er hvorki með stöðvar í Garðabæ né á Seltjarnarnesi. Einnig myndum við vilja þjónusta betur bæði Grafarvog og Breiðholt.

Guðrún segir lóðaskort vera ástæðu þess að ekki hafi verið byggðar fleiri stöðvar. „Við hefðum viljað byggja eina til tvær stöðvar á ári.“ Guðrún segir þau hafa fengið eina lóð í Reykjavík, á Sprengisandi, í lóðaúthlutun, aðrar lóðir eru leigðar af einkaaðilum. „Við stöndum öðruvísi en hin olíufélögin varðandi lóðamál þar sem þau hafa í gegnum áratugina fengið úthlutað vel staðsettum lóðum til skiptis frá sveitarfélögum.“

Hún segir þó aðstæður Atlantsolíu mjög misjafnar eftir sveitarfélögum, t.d. hafi gengið vel að fá lóðir í Kópavogi en í Garðabæ og Reykjavík hafi gengið erfiðlega. Guðrún segir það ekki fyrirfram ákveðið hversu margar stöðvar Atlantsolía ætli að opna en þau sjái fyrir sér að bæta við þremur stöðvum á Stór-Reykjavíkursvæðinu, og svo sé landsbyggðin eftir.“

Ítarlegra viðtal við Guðrúnu má finna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.