Frá 2004 til 2015 hefur lóðaverð í hækkað um 508% reiknað á verðlagi ársins 2015. Friðrik Á. Ólafsson, forstöðumaður byggingarsviðs Samtaka iðnaðarins, segir í samtali við Viðskiptablaðið að lóðaverð sé í dag þannig að verktakar freistist til að byggja stórar og dýrar íbúðir frekar en litlar og ódýrar.

„Ástæðan er sú að að í nánast í öllum sveitarfélögum er lóðaverð greitt per íbúð og þannig hefur það verið lengi," segir Friðrik. "Það er sem sagt sama lóðaverð fyrir 55 fermetra íbúð og 150 fermetra íbúð í flestum sveitarfélögum. Við höfum oftsinnis bent sveitarfélögum á hvað þetta er óskynsamlegt en nánast ekki fengið neinar undirtektir. Bæjaryfirvöld í Kópavogi breyttu þessu fyrirkomulagi reyndar lítillega fyrir ári síðan. Eftir sem áður finnst okkur ekki hafa verið gengið nógu langt en Kópavogsbær sýndi þó viðleitni, sem er meira en aðrir hafa gert.

Í dag er lóðaverð um 20% af söluverði eigna en hér áður fyrr var þetta hlutfall ekki svona hátt. Núna í apríl reiknuðum við hvert lóðaverð ætti að vera ef það hefði fylgt byggingarvísitölu og hvert raunverðið væri. Munurinn er gríðarlegur."

Útreikningarnir miða við eitt hverfi í sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu og sýna þróunina frá 2004 til 2015. Annars vegar sýna þeir hver hækkunin hefði orðið ef lóðaverð hefði fylgt byggingarvísitölu og hins vegar hver raunhækkunin er. Ef lóðaverð í þessu hverfi hefði fylgt byggingarvísitölu hefði það hækkað úr 470.000 krónum í 1.007.000 krónur eða um 114% en raunin er sú að í þessu hverfi hækkað lóðarverð 470.000 krónum í 5.200.000 krónur eða um 1006%. Á verðlagi ársins 2015 hefur lóðaverðið hækkað úr 855.000 krónum árið 2004 í 5.200.000 krónur á þessu ári eða um 508%.

Í Viðskiptablaðinu í síðustu viku var greint frá því að íbúðafjárfesting hefði dregist saman um 13,3% á fyrstu sex mánuðum ársins og 20,4% samanborið við 2. ársfjórðung í fyrra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .