Ingólfur Gissurarson fasteignasali hjá Valhöll fasteignasölu segir lóðaverð í Hveragerði jafnvel vera einungis um þriðjungur af verðinu í Reykjavík að því er fram kemur í Morgunblaðinu. „Það er mikill sparnaður fyrir 30-40 mínútna akstur,“ segir Ingólfur en fasteignasalan býður nú 10 byggingarlóðir á Grímsstaðarreit í Hveragerði til sölu.

Lóðin er með einu eldra 130 fermetra einbýlishúsi sem er á einni af þremur parhúsalóðum og svo eru þrjár einbýlishúsalóðir til viðbótar, en ásett verð á öllu saman er um 120 milljónir. Ingólfur segir að skortur á lóðum vera að þrýsta uppi verðinu svo lóða- og hönnunarverð sé allt að þrefalt hærra í Reykjavík en það sem þarna er í boði.

„Það eru engar lausar sérbýlishúsalóðir til í Reykjavík. Rætt er um að undanfarið hafi söluverð á slíkum lóðum verið í kringum 18-20 milljónir. Þá á eftir að teikna. Það getur kostað 4-8 milljónir. Samanlagt gera þetta 22-28 milljónir,“ segir Ingólfur sem reiknar með að allt í allt kosti húsin sem reist verði á lóðunum um 60-70 milljónir.

Í borginni myndi samsvarandi hús, sem miða við að vera um 185 til 200 fermetrar með bílskúr, kosta um 90 til 100 milljónir króna.

Grundvöllur að myndast fyrir nýbyggingum

„Það er hægt að fá nýtt einbýlishús í Hveragerði á svipuðu verði og sérhæð á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Ingólfur sem segir verðbilið minna á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins eftir því sem húsin eru nýrri, því oft eru gömul hús í borginni fyrst og fremst verðmæt vegna staðsetningar.

„Það eru margir tilbúnir að aka daglega til vinnu á höfuðborgarsvæðið ef þeir geta búið í stærra og jafnvel nýrra og betra húsnæði. Aksturinn tekur ekki mikið meira en hálftíma á góðum degi.“

Telur Ingólfur ótvíræðar vísbendingar um að sífelt auðveldara sé að fá fjárfestingar á landsbyggðinni til baka og því sé loksins að myndast grundvöllur fyrir nýbyggingum í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins.