Loðna er fryst ennþá af fullum krafti í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Brátt líður þó að því að hrognavinnsla hefjist, segir á heimasíðu fyrirtækisins .

Í gærmorgun var lokið við að frysta 1.380 tonn úr Berki NK og þá var Beitir NK kominn með 1.150 tonn.

Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, segir í viðtali á heimasíðunni að loðnan sem fékkst í veiðiferðinni sé fínasta Japansloðna.

„Við fengum aflann á Meðallandsbugtinni og tókum síðan í lokin eitt 300 tonna kast á Kötlutanganum. Þetta er gæðaloðna og til dæmis í síðasta kastinu var yfir 60% hrygna og hrognafyllingin 18%. Á mánudagskvöldið var töluvert mikið að sjá af loðnu á þeim slóðum sem við vorum á en síðan gekk hún upp í fjöruna. Það var heldur óhagstætt að eiga við hana í túrnum vegna þess að hann blés úr austri og gerði okkur erfitt fyrir. Spurningin er hvort næsti túr verður ekki hrognatúr,“ segir Tómas.

Blængur úr fyrsta túr ársins

Frystitogarinn Blængur NK kom til heimahafnar í Neskaupstað á þriðjudag að lokinni fyrstu veiðiferð ársins. Skipið hélt til veiða 4. febrúar en það hafði verið í slipp á Akureyri frá því í desember. Aflinn í veiðiferðinni var 471 tonn upp úr sjó að verðmæti 120 milljónir króna.