*

fimmtudagur, 9. desember 2021
Innlent 5. október 2021 15:40

Loðnan gæti skilað hátt í 100 milljarða

Stóraukinn loðnukvóti gæti skilað 50-70 milljörðum í útflutningstekjur og aukið hagvöxt næsta árs um 0,8%.

Ritstjórn

Útflutningsverðmæti loðnukvótans gæti orðið 50-70 milljarðar eða jafnvel enn meira samkvæmt greiningu Íslandsbanka. Yrði það umtalsverður búhnykkur fyrir hagkerfið, eins og komist er að orði, og hefur bankinn hækkað hgavaxtarspá sína fyrir næsta ár um 0,8% í 4,4% í samræmi við það.

Bráðabirgðaráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar eftir haustmælingar hljóðar upp á yfir 900 þúsund tonna kvóta samanborið við 127 þúsund tonn – þar af 71 þúsund fyrir íslensk skip – á nýliðnu fiskveiðiári. Yrði það umfangsmesta loðnuvertíð í tæp 20 ár.

Talsverð óvissa er þó sögð um hversu miklum útflutningstekjum nákvæmlega slík vertíð gæti skilað, en þar hefur bæði afurðaverð og samsetning afurðanna áhrif.

Á fyrstu 8 mánuðum þessa árs skilaði loðnan ríflega 18 milljörðum króna, sem er í fyrsta sinn síðan 2019 sem tekjurnar fara yfir 10 milljarða. Á síðasta áratug skilaði loðnan 8% allra útflutningstekna af sjávarútvegi, en hlutfallið sveiflaðist þó mikið innan hans.

Í samræmi við þetta gerir greining bankans nú ráð fyrir 6-8% vexti í útflutningsverðmæti sjávarafurða, í stað 2% samdráttar eins og áætlað var í nýútkominni Þjóðhagsspá.

Stikkorð: Íslandsbanki Loðna Loðna