Hlutabréfaverð útgerðarfélaganna Brims og Síldarvinnslunnar hefur hækkað verulega í fyrstu viðskiptum dagsins og hefur aldrei verið hærra. Hafrannsóknarstofnun ráðlagði í morgun veiðar á allt að 904.200 tonn af loðnu fyrir komandi vertíð. Þetta er töluverð aukning frá síðasta vetri þegar kvótinn var 127.300 tonn.

Um er að ræða haustráðgjöf sem er endurmetin ráðgjöf fyrir núverandi fiskveiðiár og kemur í stað upphafsráðgjafar frá haustinu 2020 sem þá var 400.000 tonn.

Gengi Brims stendur nú í 73 krónum á hlut og hefur hækkað um nærri þriðjung frá lokun Kauphallarinnar á föstudaginn síðasta. Hlutabréfaverð Síldarvinnslunnar nemur nú 83 krónum á hlut og hefur hækkað um 22% í vikunni. Gengi Síldarvinnslunnar er nú 38% hærra en í útboði félagsins í maí síðastliðnum.