Hafrannsóknarstofnun hefur ákveðið að auka aflamark loðnu um 320 þúsund tonn. Búið var að gefa út 260 þúsund tonna kvóta og verður heildarloðnukvótinn því 580 þúsund tonn.

Teitur Gylfason, sölustjóri hjá Iceland Seafood, sló á það á dögunum að 100 þúsund tonna viðbót væri um 3 til 4 milljarða króna virði. Miðað við þær forsendur er 320 þúsund tonna viðbótin því 10 til 13 milljarða króna virði. Í Morgunblaðinu í dag segist Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, telja að heildarkvóti íslenskra skipa verði um 400 þúsund tonn. Það magn gæti skilað 25 til 28 milljörðum króna.

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að aðeins 22 skip hafa veiðiheimildir í loðnu, en tæp 75% kvótans falla í hlut fimm útgerðarfyrirtækja; Ísfélags Vestmannaeyja, HB Granda, Síldarvinnslunnar, Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum og Samherja.