Atvinnuvegaráðherra hefur á grundvelli tillagna Hafrannsóknarstofnunar ákveðið að heimila veiðar á 150 þúsund tonnum af loðnu í viðbót við áður útgefnar aflaheimildir.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að í kjölfar mælinga haustið 2012 var metið að hrygningarstofn loðnu á vetrarvertíð 2013 yrði um 720 þúsund tonn. Hafrannsóknastofnun lagði því til í samræmi við aflareglu að leyfðar yrðu veiðar á 300 þúsund tonnum á vertíðinni 2012/2013.

Rannsóknarskipið Árni Friðriksson hefur að undanförnu verið við mælingar á stærð loðnustofnsins útaf Austfjörðum, Norðurlandi og allt að Vestfjörðum. Enda þótt mælingunum sé ekki lokið þykir ljóst að magn kynþroska loðnu á svæðinu er nokkuð meira en fyrri mælingar sýndu. Bráðabirgðaniðurstöður benda til þess að hrygningarstofninn sé um 200 þúsund tonnum stærri en mælingar frá því í október 2012 bentu til.

Búast má við að leiðangri Árna Friðrikssonar ljúki síðar í lok þessarar viku og mun Hafrannsóknastofnun í kjölfarið meta niðurstöðurnar og veita stjórnvöldum ráðgjöf um heildaraflamark vertíðarinnar í samræmi við samþykkta aflareglu.