Loðnuráðgjöf Hafró var eins og sprengja sem menn fengu í fangið,“ segir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar (SVN), í uppgjöri félagsins á þriðja ársfjórðungi.

„Loðnuvertíðin verður risavaxið verkefni og þegar hafa verið teknar stórar ákvarðanir til að freista þess að ná að vinna þann kvóta sem gefinn var út. Það ríkir bjartsýni hvað varðar vertíðina og hún á eftir að verða mikil lyftistöng fyrir sjávarútvegsfyrirtækin, starfsfólk þeirra og samfélagið allt,“ segir Gunnþór. Eftir ráðgjöf Hafró stefnir í stærstu loðnuvertíð í nær tvo áratugi.

Hafrannsóknarstofnun ráðlagði í byrjun október veiðar á allt að 904.200 tonn af loðnu fyrir vertíðina en til samanburða var kvótinn 127.300 tonn. Í fjárfestakynningu Síldarvinnslunnar er komið inn á stöðuna á erlendum mörkuðum fyrir loðnu.

„Markaðir eru fáir og verð háð framboði. Fyrirséð að verðin sem sáust á síðustu vertíð verða ekki í boði, ef mikið verður framleitt,“ segir í kynningunni. Stórt spurningamerki sé með markaði í Austur-Evrópu. Þar séu enn birgðir frá síðustu vertíð, bent er á að verð hafi verið of há og kaupgetan ekki til staðar. Því til viðbótar hafi kaupendahópurinn minnkað. Byrjað sé þó að vinna með kaupendum í að undirbúa markaði þar.

„Nú mun viðskiptabann á Rússland bíta fast,“ segir í fjárfestakynningunni en bent er á að Rússlandsmarkaðurinn hafi verið einn sá stærsti fyrir frosna loðnu og mikilvægur hrognamarkaður.

Hagnast um 2,2 milljarða

Rekstrartekjur Síldarvinnslunnar á þriðja fjórðungi jukust um 2,7% á milli ára, í dollurum talið, og námu 9,1 milljarði króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á fjórðungnum lækkaði um 6,3% frá fyrra ári og nam 3,4 milljörðum króna. Hagnaður Síldarvinnslunnar eftir skatta var 2,2 milljarðar króna á þriðja fjórðungi.

„Reksturinn hefur heilt yfir gengið vel á árinu og á þriðja ársfjórðungi hefur starfsemin verið umfangsmikil. Nær samfleytt frá miðjum júní hefur verið unnið á 12 tíma vöktum í fiskiðjuveri fyrirtækisins við manneldisvinnslu. Það hefur mætt mikið á öllum starfsmönnum félagsins,“ segir Gunnþór.

Gunnþór segir veiðar á makríl hafi verið þyngri en í fyrra en áframhaldandi veiðisamstarf gerði skipunum kleift að ná kvótum og hámarka verðmæti miðað við ástand fisksins. Norsk íslenska síldin hélt sig hér við landið. Vel gekk að veiða hana og gæði fisksins voru mikil. Bolfiskveiðar hafa gengið vel.

Í lok september námu eignir Síldarvinnslunnar samtals 80,0 milljörðum króna, skuldir 27,2 milljörðum og eigið fé 52,8 milljörðum.