Matís lauk á árinu verkefnum er snúa að rannsóknum á nýtingarmöguleikum makríls í flakaafurðir á meðan hann er innan íslensku lögsögunnar. Niðurstaðan er að slík nýting er vel möguleg, að því er kemur fram í ársskýrslu fyrir árið 2020. Ásamt flakanýtingu var framleiðsla roðskorinna makrílflaka skoðuð, sem og nýting á makrílroði til framleiðslu verðmætra afurða.

Nýta má dýrasvif

Afurðir makríls er aðeins ein hlið rannsókna Matís á bættri nýtingu uppsjávarfisks. Í ársskýrslunni er vikið að nýtingu á dýrasvifi en gríðarleg tækifæri felast í slíkri vinnslu sem hingað til hefur verið ósnert auðlind hér á landi. Á komandi árum munu Matís og samstarfsaðilar vinna að því að gera það mögulegt að fullvinna verðmætar afurðir úr dýrasvifi, sem berst til lands sem aukahráefni eða sem meðafli frá uppsjávarfisksveiðum, segir í ársskýrslunni.

Erfðafræðin nýtt

„Nú eru erfðafræðilegar aðferðir í þróun innan Matís sem munu skila aukinni þekkingu á aðskilnaði síldarstofna í Norður-Atlantshafi og stuðla að bættri fiskveiðistjórnun. Einnig eru í þróun aðferðir til að finna og rekja loðnu með umhverfis DNA og þannig auka þekkingu á breyttri dreifingu hennar sem mun auðvelda og bæta stofnstærðarmat loðnu á íslenskum hafsvæðum,“ segir þar en þekkingu Matís á vinnslu og veiðum uppsjávarafla verður miðlað til uppsjávariðnaðarins í formi handbókar.

Mjöl- og lýsisframleiðsla skipar stóran sess í verðmætasköpun uppsjávariðnarins og hefur Matís unnið að því að besta þá framleiðslu svo hámarksnýting náist en einnig hefur verið unnið að því að nýta hráefnið í verðmætari afurðir sem nýta má t.d. beint í matvælaframleiðslu.