Jólagjöfin í ár er lófaspilarinn (e. portable media player). Þetta er samróma álit smásöluteymis Rannsóknaseturs verslunarinnar. Þessi handhægu tæki sem miðla tónlist, kyrrmyndum, hreyfimyndum og leikjum eru nýjung ársins og verða áreiðanlega í mörgum jólapökkum í ár segir í frétt Rannsóknarsetursins.

Rannsóknasetur verslunarinnar birtir nú í fyrsta skipti spá um umfang jólaverslunarinnar ásamt útnefningu á jólagjöf ársins. Þess má geta að víða um lönd hefur tíðkast að spá fyrir um það fyrirfram hver verði jólagjöfin í ár.

Í spánni er gert ráð fyrir að smásöluvelta í desember með virðisaukaskatti nemi 38.770 milljónum króna sem er 10,8% hækkun frá fyrra ári. Ennfremur að aukningin verði um 7,4% í dagvöruverslun en 13,6% í sérvöru. Á grundvelli sérstakrar athugunar á árstíðarsveiflu í greiðslu-kortaveltu má áætla að velta vegna jólanna umfram það sem væri í meðalmánuði verði um 5.815 milljónir króna í ár. Þetta samsvarar viðbótarútgjöldum upp á 19.607 krónur á hvert mannsbarn, eða 78.429 krónur á hverja fjögurra manna fjölskyldu, vegna jólahaldsins.