*

fimmtudagur, 9. júlí 2020
Fjölmiðlapistlar 19. maí 2018 13:43

Löffar & þöggun

Stóri misskilningurinn hjá útvarpsstjóra er þó sá að hjá fréttamiðli, opinberri stofnun, megi sannleikurinn vera samningsatriði.

Andrés Magnússon
Alvogen
Haraldur Guðjónsson

Hér var í liðinni viku nokkuð fjallað um viðskipti Ríkisútvarpsins við athafnaskáldið Guðmund Spartakus Ómarsson. RÚV, útvarp í almannaþágu, greiddi honum 2½ milljón króna fyrir að falla frá meiðyrðamáli á hendur því vegna frétta, þar sem hann kom við sögu, en fréttin hefur ekki enn verið leiðrétt, afturkölluð eða annað.

Þetta mál hefur vakið nokkurn kurr meðal fjölmiðlafólks og víðar sjálfsagt, enda ræðir þarna um að grundvallaratriði í fjölmiðlun voru látin lönd og leið fyrir óvissa, ef ekki hæpna, hagsmuni.

Svo fór að Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri rauf þögn sína um málið um helgina og sagði að Ríkisútvarpið hefði þurft að velja milli tveggja slæmra kosta. Og valdi peninginn frekar en sannleikann. 

Nú má auðvitað efast um að úr því sem komið var hafi aðeins staðið tveir kostir til boða, það er nú sjaldnast þannig í lífinu. En jafnvel þó svo hafi verið þá valdi Ríkisútvarpið ranga kostinn. Sjálfsagt þann auðvelda, en það eru nú sjaldnast réttu kostirnir, eins og fólk þekkir.

Stóri misskilningurinn hjá útvarpsstjóra er þó sá að hjá fréttamiðli, opinberri stofnun, megi sannleikurinn vera samningsatriði. Þegar hann er einu sinni afsalaður er um leið vakinn efi um allt annað sem á undan kom og eftir fer.

En það var fleira í fréttinni, sem athygli vakti, en ekkert af því var til þess fallið að efla álit á RÚV, yfirstjórn þess eða vinnubrögðum. Eitt var það að fram kom í máli útvarpsstjóra, að fyrir umræddri frétt hefðu menn haft erlenda fjölmiðla fyrir sér, auk eins heimildarmanns. Og af því að hann vildi ekki stíga fram, þá hefði vörnin ónýst og því nauðsynlegt að semja.

Þessi heimildarmaður var ljóslega hafður fyrir hinum umdeildu ummælum, en þá er um leið ljóst að fréttastofan braut þá eðlilegu reglu að hafa a.m.k. tvo sjálfstæða heimildarmenn fyrir fréttum. Það er hin almenna regla við vinnslu frétta, en þegar um svo alvarlegar ávirðingar að ræða hefðu menn átt að sýna sérstaka aðgæslu og spyrjast betur fyrir. Nú eða að orða hlutina eilítið fínlegar.

Til þess að gera illt verra er þetta með feimni eða ótta heimildarmannsins ekki rétt. Það er margstaðfest fyrir dómi og raunar bundið í lög nú, að fjölmiðlar þurfa ekki að gefa upp heimildarmenn í réttarsölum. Vel mætti benda á frásagnir í erlendum fjölmiðlum, leggja fram minnisbækur eða endurrit á upptökum af frásögnum heimildarmanna og sýna fram á að góðra vinnubragða hafi verið gætt. Viti útvarpsstjóri það ekki, þá ber það vott um ótrúlegt þekkingarleysi hjá æðsta yfirmanni umsvifamesta fjölmiðils landsins. Viti hann það, er það svo enn verra.

Hitt er svo einnig með ólíkindum, að þegar yfirstjórnin tekur þessa einkennilegu ákvörðunum að bera fé á Spartakus, að þá var fréttastjórinn ekki einu sinni hafður með í ráðum! Fréttastjórar og ritstjórar hafa sagt upp af minna tilefni, en við blasir að traust og trúnaður milli fréttastofu og yfirstjórnar er í molum.

Höldum okkur við þöggun fjölmiðla, lögfræði og þess háttar. Fjölmiðlarýnir gluggaði í Markaðinn í gær, en það er vikulegur viðskiptakálfur Fréttablaðsins. Þar var sögð frétt af nýjustu viðskiptaævintýrum góðkunningja þessarar síðu, athafnaskáldsins Róberts Wessman. Þar var greint frá því að Jefferies bankinn hefði verið fenginn til þess að veita lyfjafyrirtækinu Alvogen söluráðgjöf við mögulega sölu á starfsemi þess í Mið- og Austur-Evrópu. Þar var raunar komið inn á frétt, sem hnusað var að hér í sókninni fyrir nokkrum vikum, en Viðskiptablaðið komst ekkert með gegn eindreginni neitun. Eins og gengur.

Markaðurinn hafði hins vegar komist yfir fjárfestakynningu á starfseminni, en þar kom m.a. fram það mat, að umrædd starfsemi kynni að vera allt að 100 miljarða króna virði. Svo var sagt frá rekstrarhagnaði, tekjum og sölu, þessu helsta sem lesendur viðskiptablaða þyrstir í að lesa. Það var þó eftirtektarvert, að í kynningunni var aldrei minnst á Alvogen fullum fetum, heldur aðeins tekið fram að fyrirtækið Alloy Group hefði munstrað Jefferies til söluráðgjafar, en af lýsingu á rekstrinum er vel ljóst að þar ræðir um Alvogen.

Af því tilefni sneri Markaðurinn sér til Halldórs Kristmannssonar, framkvæmdastjóra hjá Alvogen, sem varðist allra frétta og kvaðst ekki vilja tjá sig um trúnaðargögn.

Gott og vel, honum ber engin skylda til þess, þó að sölukynning til fjárfesta sé nú tæplega mikið trúnaðargagn. Það getur vel verið að Halldóri þyki málið vandræðalegt og vilji því lítið gefa út á það, en kannski hann hefði átt að ráðfæra sig við almannatengil, því öll viðbrögðin eru helst til þess fallin að staðfesta hinn undirliggjandi fréttapunkt. Og gott betur, því þau ríma talsvert við frétt Morgunblaðsins frá í mars, um að eignarhald á fyrirtækinu væri svona frekar dularfullt.

Það var þó ekkert hjá því sem fram kemur í niðurlagi fréttar Markaðarins, en þar segir að blaðinu hafi borist bréf frá breskri lögmannsstofu, þar sem þess var krafist fyrir hönd Alvogen Lux Holdings, að ekki yrði í neinu greint frá innihaldi kynningarinnar í blaðinu, en að öðrum kosti áskildi félagið sér allan rétt til málshöfðana og lögbanns.

Nú er auðvitað ósennilegt að þessu félagi verði kápan úr því klæðinu. Í ljósi yfirlýsingarinnar um að Alloy Group hafi verið verkkaupi má draga aðild Alvogen Lux í efa.

Það sem vekur áhyggjur í málinu er hins vegar hitt, að enn og aftur – líkt og oft hefur verið lýst í þessum dálkum –  fara Róbert Wessman og húskarlar hans í leiðangra gegn fjölmiðlum, beinlínis til þess að þagga niður í þeim. Það er einstaklega vond afstaða og beinlínis hættuleg, því slíkir þöggunartilburðir geta borið árangur og þeir geta aukin heldur orðið öðrum miðlum víti til varnaðar, svo þeir fara að þagga niður í sjálfum sér. Þetta er svo hálfu óþægilegra í ljósi þess áhuga sem Róbert hefur sýnt því að eignast fjölmiðla sjálfur.

Auðvitað er það ekkert nýtt að auðugir menn reyni að þagga niður í fjölmiðlum út af hinu og þessu, það hafa fjáðir menn í þúsund löndum reynt. En þeir hafa fæstir haft það að reglu. Fjölmiðlarýnir heldur raunar að Róbert sé eini maðurinn sem hefur gert það að staðaldri. Kannski ætti hann að leita sér að meira gefandi áhugamáli.