Markaðir hækkuðu í Evrópu í dag eftir að seðlabankar í Evrópu lofuðu að þeir myndu auka fjármagn í umferð á næstunni. Það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem hækkuðu í dag.

FTSEurofirst 300 vísitalan hækkaði um 1% í dag og stendur nú í 1.271,59 stigum og hefur ekki verið hærri frá því um miðjan mars. Vísitalan hefur þó engu að síður lækkað um 15% á árinu að sögn Reuters fréttastofunnar.

FTSE 100 vísitalan í Lundúnum hækkaði einnig um 1%. DAX vísitalan í Frankfurt hækkaði um 1,4%, AEX vísitalan í Amsterdam hækkaði 0,9% og CAC 40 vísitalan í París hækkaði sömuleiðis um 0,9%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 1,2%, í Svíþjóð hækkaði OMXS vísitalan 2,1% og í Noregi hækkaði OBX vísitalan um 2%.