Dilma Rousseff tók við embættistaumunum sem forseti Brasilíu eftir mikinn kosningasigur árið 2010. Fjórum árum síðar var hún endurkjörin, en í það skipti sigraði hún helsta andstæðing sinn Aévio Neves með aðeins þremur prósentustigum. Þó var mikill munur á milli Suður-Brasilíu, þar sem Rousseff tapaði, og í norðurhluta landsins, þar sem hún hlaut 72% atkvæða.

Stuðningur við Rousseff féll hins vegar afar hratt og mældist innan við 10 prósent á seinni hluta síðasta árs. Í síðasta viku samþykkti öldungadeild brasilíska þingsins að draga Rousseff fyrir dómstóla fyrir að falsa hagtölur. Atburðarásin hefur verið mjög umdeild og telja margir að hana megi rekja til veiks stjórnmálakerfis í Brasilíu frekar en afglapa Rousseff.

Megna óánægju með störf Rousseff má ekki síst rekja til langvarandi efnahagslægðar í Brasilíu í kjölfar hraðs efnahagsuppgangs. Viðskiptakjör Brasilíu bötnuðu um þriðjung á tímabilinu 2005-2011 og verðmæti hrávöruútflutnings jókst mjög.

Lágmarkslaun voru hækkuð og ríkið innleiddi skilyrtar greiðslur til fjölskyldna, þar sem foreldrar fá pening frá hinu opinbera fyrir að sjá til þess að börn sín gangi í skóla og séu bólusett. Eins og víðar skuldsetti brasilískur almenningur sig í uppsveiflunni. Skuldir einkageirans jukust úr 43% af landsframleiðslu árið 2005 í 93% árið 2015.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .