Halldór Margeir Ólafsson og Danfríður Árnadóttir, eigendur Loftsins í Austurstræti, hafa ákveðið að selja reksturinn. Þau hafa rekið Loftið frá árinu 2012 en ætla nú að færa að minnsta kosti annan fótinn til Danmerkur og aðstoða dóttur sína, Karen Halldórsdóttur, við að koma á fót hotjógastað og lífrænum safabar í Kaupmannahöfn.

„Hún er að opna einn stað undir nafninu Dóttir HotYoga í Sydhavn í Kaupmannahöfn og ætlar að opna annan í haust miðsvæðis í borginni,“ segir Halldór. Hann segir rekstur Loftsins alla tíð hafa gengið mjög vel. Skýr stefna á að hans mati stóran þátt í velgengni staðarins. „Þetta hefur verið vinsælasti staðurinn fyrir fólk svona 27 ára og upp úr. Við höfum verið með skýra stefnu um snyrtilegan fatnað, svokallað „dresscode“, og að áberandi ölvað fólk fær ekki að fara inn á staðinn,“ segir Halldór. „Þetta hefur samt verið voðalega erfitt fyrir Íslendinga að skilja, bæði „dresscode“ og þetta með ölvunina. Það er ekki öfundsvert að vera dyravörður á Loftinu. Þeir eru andlit staðarins og standa sig ótrúlega vel eins og allt mitt starfsfólk.“

Frekar hálftómur staður en fullur af fullu fólki

Stefnan hefur farið misvel í fólk en Halldór segir að þeir sem kunni að meta þessa stefnu hafi ekki hátt um það. „Þetta þykir kannski eitthvert snobb en þetta er stefnan. Við keyrum frekar á hálftómum stað heldur en stað fullum af drukknu og illa klæddu fólki.“ Hann segir þessa stefnu hins vegar hafa skilað því að Loftið hafi sloppið við vesen. „Það er samt alltaf einn og einn sem er að djöflast í kvenfólki en þeir eru bara fjarlægðir úr húsinu strax. Við erum mjög stíf á þessu.“ Loftið hefur lagt mikla áherslu á kokteilagerð og selur ekki bjór á krana.

„Við erum lounge- og kokteilbar með klúbbastemningu þannig að við viljum ekki fólk að veltast um með hálfslítra bjórglös á dansgólfinu. Við höfum alltaf keyrt á hágæða vörum. Gin er ekki það sama og gin og vodka er ekki það sama og vodka. Þú gengur alltaf að vissum gæðum hjá okkur.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .