*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 10. ágúst 2017 11:20

Loftleiðir gera samning á Grænhöfðaeyjum

Loftleiðir Icelandic hafa gert samkomulag um samstarf við endurskipulagningu flugfélagsins TACV Cabo Verde Airlines.

Ritstjórn
Gunnhildur Lind Photography

Loftleiðir Icelandic, dótturfélag Icelandair Group, TACV Cabo Verde Airlines og ríkisstjórn Grænhöfðaeyja (í Vestur-Afríku) hafa gert samkomulag um samstarf við endurskipulagningu flugfélagsins TACV Cabo Verde Airlines. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Loftleiðum.

Markmið samkomulagsins er ennfremur að styrkja alþjóðaflugvöllinn á Grænhöfðaeyjum og vinna að því að gera eyjaklasann að álitlegum ferðamannastað allt árið um kring. Einnig er ætlunin að byggja upp og nýta staðsetningu Grænhöfðaeyja sem tengistöð fyrir alþjóðlegt flug.

Meðal verkefna sem Loftleiðir Icelandic mun vinna með TACV og ríkisstjórn Grænhöfðaeyja, í samstarfi við önnur dótturfélög innan Icelandair Group, eru skipulagning leiðakerfis, markaðsmál, sala og dreifing og endurskipulagning á flugflota félagsins. Gert er ráð fyrir að í vetur muni Loftleiðir leigja eina vél til TACV.  Í dag er TACV flugfélagið í opinberri eigu Grænhöfðaeyja en stjórnvöld þar í landi áforma að selja félagið til einkaaðila að lokinni endurskipulagningu. 

Í tilkynningunni segir Erlendur Svavarsson, framkvæmdastjóri Sölu- og markaðssviðs Loftleiða Icelandic: „Við erum mjög ánægð með þennan samning og hlökkum til að aðstoða TACV Cabo Verde Airlines við endurskipulagningu félagsins og að efla Grænhöfðaeyjar sem flugtengistöð. Við trúum því að TACV Cabo Verde Airlines sé í ákjósanlegri stöðu til að nýta sér staðsetningu Grænhöfðaeyja í Atlantshafinu. Við munum vinna með flugfélaginu og ríkisstjórn Grænhöfðaeyja við að endurskipuleggja flugfélagið þannig að það festi sig í sessi í framtíðaruppbyggingu flugs á svæðinu. Við munum nýta okkur þá farsælu reynslu og þekkingu sem Icelandair Group og dótturfélög hafa öðlast í gegnum tíðina og hefur lagt grunninn að því að gera Ísland að þeirri flugmiðstöð sem hún er í dag.“

í tilkynningunni er einnig haft eftir José Gonçalves, efnahags- og atvinnumálaráðherra Grænhöfðaeyja: „Ríkisstjórn Grænhöfðaeyja er mjög ánægð með samstarfið við Loftleiði Icelandic, dótturfélag Icelandair Group, sem mun leiða endurskipulagningu okkar þjóðarflugfélags. Sú reynsla sem þar er til staðar mun einnig nýtast okkur vel við uppbyggingu Grænhöfðaeyja sem flugtengistöð. TACV Cabo Verde Airlines er félag með yfir 60 ára sögu og hefur félagið átt í samstarfi við Icelandair um flugafgreiðslu á Logan flugvelli í Boston um árabil. Ferðamannaiðnaður vex hröðum skrefum á Grænhöfðaeyjum og flugfarþegum á heimsvísu fjölgar stöðugt. Það eru því spennandi tímar framundan.“