Loftleiðir Icelandic, dótturfélag Icelandair Group, hefur samið við þýska flutningafyrirtækið Hapaq Lloyd Cruises um leiguflug með hópa í hágæðaheimsferðum. Flugið hefst í byrjun næsta árs og er samningurinn til þriggja ára. Nýlega sömdu Loftleiðir við National Geographic Partners / Global Adrenaline ferðaskrifstofuna  um svipaðar ferðir. Gert er ráð fyrir að tvær Boeing 757 vélar muni að jafnaði sinna ferðum af þessu tagi á næstu árum.

Hapaq Lloyd er fyrst og fremst þekkt sem skipafélag en það rekur 180 flutningaskip um allan heim. En auk þess er það þekkt fyrir að reka 5 stór farþegaskip og sá hluti Hapaq Lloyd annast einnig lúxusflugferðir  eins og þær sem samningurinn við Loftleiðir fjallar um

Í heimsferðunum er mikil áhersla lögð á fyrsta flokks þægindi, veitingar og þjónustu. „Þetta er mikil viðurkenning fyrir Loftleiðir og starfsfólk Icelandair Group. Sérstakar innréttingar eru settar í vélarnar til þess að sinna ferðunum, og í þessu ferðum fyrir Hapaq Lloyd er komið fyrir sætum sem hægt er að leggja niður og breyta í þægileg rúm. Flugliðar okkar og matreiðslumeistarar hafa fengið hæstu einkunn hjá farþegum svona ferða í gegnum tíðina. Orðsporið er því gott sem hefur leitt til þess að mikil eftirspurn er eftir þjónustunni“, segir Árni Hermannsson, framkvæmdastjóri Loftleiða Icelandic.

Boeing 757 vél félagsins verður sérstaklega útbúin fyrir aðeins 50 farþega, sem hafa vélina til afnota sem einskonar einkaþotu meðan á heimsferðinni stendur. Hver ferð tekur að meðaltali tvær til þrjár vikur, þar sem 5-7 viðkomustaðir vítt og breitt um heiminn eru heimsóttir, og bíður flugvélin á meðan farþegar dvelja þar og skoða sig um.  Flestar ferðirnar hefjast í í Evrópu, gjarnan í Hamborg eða Zurich.

Að jafnaði verða 13 áhafnarmeðlimir í hverri ferð, 3 flugmenn, 7 flugfreyjur/þjónar, 2 matreiðslumeistarar og 1 flugvirki. Áætlað er að yfir 20 ferðir verði farnar á samningstímabilinu.

Loftleiðir Icelandic hafa í samstarfi við Icelandair sérhæft sig í slíkum ferðum á undanförnum árum með vaxandi umsvifum fyrir helstu ferðaskrifstofur á þessu sviði. Að baki hverri ferð liggur mikil vinna víða innan fyrirtækisins. Reynsla og þekking starfsmanna hefur komið að sérstaklega góðum notum, hvort sem er við uppfærslu á farþegarými eða við skipulagningu ferðanna, sérstaklega þar sem oft er flogið á frumstæðar og framandi slóðir. Á undanförnum árum hafa vélar Icelandair heimsótt sjö heimsálfur í sambærilegum leiguflugum.