Flugvél og áhöfn frá Icelandair mun í dag sækja um 260 þýska ferðamenn til Mexíkó og koma þeim heim til Þýskalands. Samkvæmt Ásdísi Ýr Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair Group er um að ræða leiguflugsverkefni á vegum Loftleiða, dótturfélags Icelandair Group.

Þýski hópurinn sem verið er að sækja var staddur í skemmtisiglingu úti fyrir ströndum Mexíkó sem lauk fyrr en áætlað var vegna útbreiðslu COVID-19. Hópurinn var á vegum þýskrar ferðaskrifstofu sem hefur verið viðskiptavinur Loftleiða.

Boeing 767 flugvél Icelandair með fullri áhöfn lagði af stað til Mexíkó í gær og mun halda aftur til Evrópu í dag. Vélin tekur 262 manns í sæti og verður því full. Vélin mun lenda fyrst á Íslandi þar sem skipt verður um áhöfn og mun hún svo halda áleiðis til Frankfurt.