Loftleiðir Icelandic, leiguflugfélagið innan Icelandair Group, hefur gengið frá kaupum á 55% hlutafjár í lettneska leiguflugfélaginu Latcharter Airline, segir í tilkynningu. Ennfremur hefur félagið skuldbundið sig til að kaupa félagið að fullu innan ákveðins tíma, sem ekki var gefinn upp í tilkynningunni.

Kaupin eru gerð í framhaldi af nánu samstarfi félaganna á sviði sölu- og markaðsmála, sem kynnt var fyrr á þessu ári og undirstrika enn frekar sókn félagsins inn á A-Evrópu markað auk þess að útvíkka vöruframboð félagsins með tilkomu Airbus 320 véla, segir í tilkynningunni.

?LatCharter Airlines hafa fest sig í sessi sem traust félag á heimamarkaði sínum. Félagið býr yfir öflugu tengslaneti við þarlendar ferðaskrifstofur og ferðaheildsala. Ennfremur býr félagið yfir mikilvægri markaðsþekkingu á A-Evrópu sem við munum án efa njóta góðs af í náinni framtíð og opnar gluggann að nýjum mörkuðum fyrir núverandi vörur félagsins," segir Sigþór Einarsson, framkvæmdastjóri Loftleiða Icelandic.

Vörulína Latcharter er góð viðbót við þá þjónustu sem Loftleiðir Icelandic bjóða í dag en félagið sérhæfir sig í útleigu á flugvélum, áhöfnum, viðhaldi og tryggingum (ACMI) til flugfélaga víðs vegar um heim. Loftleiðir Icelandic annast nú verkefni fyrir aðila í Norður- og Suður Ameríku, Evrópu og Mið Austurlöndum með samtals fjórum Boeing 757 flugvélum og tveimur Boeing 767 breiðþotum, en vélarnar eru allar reknar á flugrekstrarskírteini Icelandair.

Latcharter var stofnað árið 1992 og rekur tvær Airbus 320-200 vélar en starfsmenn félagsins eru 87 talsins. Félagið hefur verið í örum vexti og flutti yfir 100.000 farþega í leiguflugi á síðasta ári auk þess að sinna blautleigu verkefnum víða um heim.

Behrens Fyrirtækjaráðgjöf veitti ráðgjöf við kaupin, en fyrirtækið sérhæfir sig í ráðgjöf til norrænna fjárfesta í Eystrasaltslöndunum.