*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Erlent 5. maí 2019 13:01

Loftnetaframleiðandinn sem lagði Apple

Apple og Qualcomm náðu óvænt samningum sem hölluðu töluvert á Apple eftir að Intel hætti við þróun 5G.

Júlíus Þór Halldórsson
Þykja má líklegt að hluthafar Qualcomm séu nokkuð sáttir með framkvæmdastjórann, Steve Mollenkopf, þessa dagana. Frá því að samningar náðust við Apple um miðjan apríl hefur hlutabréfaverð félagsins hækkað um yfir 50%.
epa

Um miðjan apríl var tilkynnt um að tæknirisarnir Apple og Qualcomm hefðu náð samkomulagi um að fella niður öll útistandandi dómsmál sín á milli, um allan heim. Fyrirtækin höfðu þá staðið í harðvítugum deilum í á þriðja ár.

Qualcomm framleiðir meðal annars farsímaloftnet fyrir gagnaflutning og er leiðandi í heiminum á því sviði. Apple hafði þar til deilan hófst notast við loftnet frá Qualcomm í hinum geysivinsælu iPhone símum.

Í kjölfar tilkynningarinnar um lausn deilunnar hækkuðu hlutabréf Qualcomm um fimmtung á klukkustund, og hækkunin nú nemur yfir 50%. Þrátt fyrir það telja greinendur fjárfestingabankans Morgan Stanley að bréfin eigi enn nokkuð inni. Hlutabréfaverð Apple var hinsvegar svo til óbreytt.

Samkomulagið fól meðal annars í sér að Apple greiddi Qualcomm um 4,6 milljarða Bandaríkjadala –eða 560 milljarða króna, eða tæp 8% af hagnaði Apple árið 2018 – og að næstu kynslóðir iPhone síma Apple muni nota loftnet frá Qualcomm, sem hefur verið leiðandi í þróun 5G tækninnar, en búist er við að Apple gefi út síma með 5G á næsta ári. Fyrir hvert loftnet er talið að Apple muni þurfa að greiða milli 8 og 9 dali.

Ástæðan fyrir nýfundinni gjafmildi Apple er sögð vera sú að Intel, helsti samkeppnisaðili Qualcomm, sem Apple hafði verið að kaupa loftnet frá meðan á deilunni stóð, ákvað að hætta við þróun 5G loftneta í bili.

Óvinir í hverju horni
Apple er þó ekki eitt um að telja sig eiga sitthvað sökótt við Qualcomm. Aðrir helstu símaframleiðendur heims segja farir sínar ekki sléttar í viðskiptum við félagið, sem hefur einkaleyfi á tækni sem er nauðsynleg til að geta tengst nútíma gagnaflutningskerfum: 3G og 4G, og þegar fram líða stundir, 5G. Auk þeirra hefur Viðskiptastofnun Bandaríkjanna (Federal Trade Commission) – nokkurs konar sambland samkeppniseftirlits og neytendastofu – átt í málaferlum við félagið lengi vegna meintra einokunartilburða, sem enn hefur ekki fengist endanleg niðurstaða í.

Fyrir fáeinum áratugum hefði fáa órað fyrir því hvernig alþjóðlegi tæknimarkaðurinn átti eftir að springa út og verða einn sá stærsti, og samkeppnin í honum ein sú harðasta, í heiminum. Fyrirtæki sem voru ýmist mjög lítil í stóra samhenginu eða hreinlega ekki til þegar meirihluti núlifandi mannkyns var að fæðast raða sér í dag á topplista stærstu fyrirtækja heims; Apple og Amazon brutu nýlega blað í fjármálasögu heimsins þegar þau urðu fyrstu skráðu fyrirtæki sögunnar til að ná þúsund milljarða dollara markaðsvirði, eða ígildi rúmlega 120 þúsund milljarða á gengi dagsins í dag.

Þrátt fyrir nánast botnlausan fjárstyrk og ítök þessara fyrirtækja var haft eftir forsvarsmönnum Apple – líklega valdamesta tæknifyrirtæki heimsins – í réttarhöldum FTC gegn Qualcomm að fyrirtækið hefði engra kosta völ haft, og upplifað sig algerlega máttlaust, í samningaviðræðum við Qualcomm um leyfisgjöld fyrir tækni þess.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Apple Qualcomm