Reuters fréttastofan fjallar í frétt sinni um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi undir yfirskriftinni „Iceland: life on global warming´s front line“.  Í greininni segir að landið verði fyrir miklum áhrifum vegna gróðurhúsaáhrifa, jöklar séu að bráðna og veðurmynstur að breytast verulega.

Gróðurhúsaáhrif hafi einnig mikil áhrif á efnahagslíf landsins, og hafi jafnvel verið arðbær. Hlýnun hafi góð áhrif á vatnsaflsvirkjanir Íslendinga, þar sem bráðnun jökla eykurvatn í ám og því sé hægt að framleiða meira rafmagn.

Einnig hafa gróðurhúsaáhrif valdið því að nýjungar Íslands í orkumálum fá vaxandi athygli og skapað þörf fyrir hugmyndir og sérþekkingu Íslendinga, t.d. á jarðhitaorku. Vísindamenn frá Afríku og Ameríku séu að kanna hvað íslenskir háskólar eru að gera og að erlend fyrirtæki séu að stofna til samstarfs með íslenskum fyrirtækjum.

Í fréttinni segir einnig að Ísland sækist fast eftir því að verða fyrsta þjóðin til að hætta að nota jarðefnaeldsneyti, og að Ísland vonist til að knýja öll sín flutningatæki með vetni árið 2050.

Frétt Reuters má lesa hér .