Samfélagsleg ábyrgð í fjárfestingum fær sífellt aukna athygli. Harpa Jónsdóttir, nýr framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) segir að lífeyrissjóðinn hafi sett sér stefnu um samfélagslega ábyrgar fjárfestingar í vor.

„Verkefni næstu ára er að framfylgja þessu. Við setjum ákveðnar kröfur á okkar viðskiptavini og spyrjum þá spurninga. Samfélagsleg ábyrgð snýst í stórum dráttum um þrennt – umhverfismálin, félagslega þáttinn sem er í raun mannúðarsjónarmið og svo stjórnarhætti, þ.e. hvernig fyrirtækinu er stjórnað. Við viljum gjarnan leggja okkar af mörkum í þessari þróun. Við erum að móta þessa stefnu fram á veginn. Það er ekki nóg að fá lífeyri þegar þú verður 67 ára ef þú getur ekki andað að þér loftinu. Að umhverfið fyrir þá sem eru að byrja að borga inn í lífeyrissjóði núna verði í lagi þegar það fer á eftirlaun.“

Kemur til greina að LSR hætti alfarið að fjárfesta í ákveðnum geirum líkt og dæmi eru um erlendis?

„Það getur vel verið. Við erum í þessari vinnu núna. Þar erum við að læra af okkar samstarfsaðilum erlendis sem eru komnir mikið lengra en við.“

Innanlands þurfi þó að huga að því að fá fyrirtæki séu skráð á markað hér á landi. „Það er til dæmis bara eitt í sjávarútvegi skráð á markaði og við eigum í því. Það fyrirtæki hefur sett sér stefnu í umhverfismálum og hlaut umhverfisverðlaun atvinnulífsins árið 2019. Með því að huga að samfélagslegri ábyrgð í fjárfestingum er hægt að slá tvær flugur í einu höggi, tryggja lífeyri og stuðla að því að lífsgæðin í framtíðinni, þegar eftirlaun verða greidd, verði betri en ella.

N ánar er rætt við Hörpu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .