*

þriðjudagur, 25. febrúar 2020
Innlent 14. febrúar 2020 18:02

Loftslagsmál orðin forgangsverkefni

Klemens Hjartar, meðeigandi hjá ráðgjafafyrirtækinu McKinsey, segir að tækifæri geti falist í því fyrir Ísland að fara á undan öðrum þjóðum í baráttu við loftlagsvandann.

Ástgeir Ólafsson
Hörður Kristjánsson

Loftslagsmál eru orðin forgangsverkefni í flestum atvinnugreinum og verkefni sem snúa að umhverfismálum hafa aukist gríðarlega hjá McKinsey á síðustu misserum,“ segir Klemens Hjartar, meðeigandi hjá alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu McKinsey & Company þar sem hann leiðir stafræna og greiningardrifna breytingastjórnun.

Klemens var einn af framsögufólki á Viðskiptaþingi sem fram fór í Hörpu í gær en yfirskrift þingsins var Á grænu ljósi – fjárfestingar og framfarir án fótspors.

Spurður hvar hann telji Ísland standa í loftslagsmálum í heiminum segir Klemens að það sé í raun mjög mismunandi eftir því á hvaða geira er litið.

„Varðandi losun á hvern einstakling, þá stendur Ísland ekkert rosalega vel. Ef maður tekur þetta geira fyrir geira þá eru sumir þeirra komnir mjög langt eins og í orkugeiranum þar sem við erum í einstakri stöðu auk þess sem hluti af þeim geira sem snýr að neytendum er kominn mjög langt. Aftur á móti eru nokkrir geirar sem eru í meiri ólestri eins og samgöngur og vöruflutningar, landbúnaður og þungaiðnaður.

Að mínu mati er margt sem bendir til þess að það verði mun hagstæðara fyrir okkur að fara aðeins fyrr af stað heldur en of seint út frá mörgum sjónarmiðum.“

Klemens segir að tækifæri geti falist í því fyrir Ísland að fara á undan öðrum þjóðum í að takast á við loftslagsvandann.

„Við höfum ekki gert mjög mikið í þessu og ekki verið með mjög mikið fjármagn í þessum geirum. Við höfum hins vegar mun meiri tækniþróun í sumum greinum eins og jarðvarma. Við vitum að allir þurfa að fara í gegnum þessa byltingu og það er alls konar tækni sem þarf að þróa til þess að þetta gangi vel. Ef þú hallar þér inn í svona breytingar aðeins á undan hinum þá hefur þú smá tækifæri til þess að þróa allar þær lausnir sem þarf til. Það getur verið grunntækni en líka varðandi innleiðingu, þjónustu, upplýsingagjöf o.s.frv.

Þannig að ef við gerum það vel þá eru miklu meiri tækifæri í því að vera aðeins fyrr í byltingunni heldur en að taka bara það sem er búið að gera annars staðar. Svo geta verið ýmsir afleiddir kostir við að vera snemma, t.d. markaðs- og ímyndarlega séð.“ 

Nánar er fjallað um málið í sérblaði um Viðskiptaþing sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér