Græn og endurnýjanleg orka hefur aldrei verið jafn eftirsóknarverð í heiminum og nú. Þetta þýðir jafnframt að hreinar orkuauðlindir Íslands verða verðmætari. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir eðlilegt að þessi aukna eftirspurn skili sér meðal annars í hærra verði til framleiðanda orkunnar.

„Við sjáum það í auknum mæli að fyrirtæki leita hingað eftir endurnýjanlegri orku. Fyrst og fremst ræður verðið áhuga þeirra, að það sé samkeppnishæft og stöðugt, en við vonum að þessi þróun haldi áfram á forsendum grænnar orku sem ætti þá að endurspeglast í að það verði líka greitt hærra raforkuverð til að fá slíka orku. Þá er eðlilegt að þau verðmæti sem um ræðir skiptist á milli orkukaupandans og orkuframleiðandans,“ segir Hörður.

Arður til þjóðar og framlag til loftlagsmála

Fyrirtæki á heimsvísu leggja stöðugt meiri áherslu á sjálfbærni og endurnýjanleg orkuvinnsla er farin að skapa mörg ný tækifæri fyrir Landsvirkjun, til dæmis með samningum við ört stækkandi gagnaversiðnað, en fleiri sóknarfæri eru í sjónmáli að sögn Harðar.

„Við sjáum þetta líka í áliðnaðinum, þar sem er að myndast markaður fyrir „grænt“ ál. Við vonum að viðskiptavinir okkar í hópi álveranna fái þá hærra verð fyrir sínar vörur og um leið skapast möguleiki á að þeir greiði hærra raforkuverð til okkar. Þarna verða til verðmæti sem nýtast okkar viðskiptavinum og viðskiptavinum þeirra og þá veltum við fyrir okkur hvernig við getum fengið hluta af þeim verðmætum. Markmið okkar er annars vegar að skila eiganda fyrirtækisins, íslensku þjóðinni, sem mestum arði af þeim orkuauðlindum sem okkur er treyst fyrir og hins vegar að leggja okkar af mörkum í baráttunni gegn hlýnun jarðar.“

Raforkuvinnsla veldur um 40% af losun koltvísýrings á heimsvísu, mestmegnis vegna framleiðslu raforku með brennslu jarðefnaeldsneytis. Aukin vinnsla endurnýjanlegrar orku er því mjög mikilvægt framlag til loftlagsaðgerða. „Við segjum að loftlagsmálin séu í eðli sínu orkumál, því að meginhluti þeirrar losunar sem er í heiminum verður vegna orkuvinnslu – bæði vinnslu rafmagns og varma,“ segir Hörður.

„Markmiðið í orkumálum heimsins er því tvíþætt, annars vegar að draga almennt úr orkuþörf og hins vegar að framleiða þá orku sem þarf með sem minnstri kolefnislosun. Við hjá Landsvirkjun tökum fjölþætta ábyrgð í þeim efnum; við leggjum áherslu á að þekkja kolefnislosun okkar, höfum sett okkur tímasett markmið varðandi okkar losun og stefnum á að verða kolefnishlutlaus árið 2030. Kolefnisspor á orkueiningu hjá okkur var undir 2 gCO2 á hverja kWst á seinasta ári, þegar binding í jarðvegi og gróðri er tekin með í reikninginn. Til samanburðar má nefna að kolefnisspor við framleiðslu raforku með kolum er yfir 800 gCO2 á hverja kWst eða 400 falt meiri. Við erum líka að styðja við orkuskiptin á Íslandi, útvegum orku og afl til þeirra, og erum að nýta endurnýjanlega orkugjafa til að styðja við framleiðsluferli og iðnaði sem nota umfangsmikla endurnýjanlega orku, ásamt því að nota íslenska þekkingu til að styðja við beislun endurnýjanlegrar orku í heiminum.“

Parísarsamningurinn hefur aukið áhuga á grænni orku

Áherslan á loftlagsmálin og græna orku fær stöðugt meira mikilvægi, ekki síst eftir Parísarsamninginn. Stefnan er meðal annars sú að færa orkuvinnslu yfir í endurnýjanlega orkugjafa. „Þá lendir heimurinn í þeirri áskorun að uppbygging á endurnýjanlegum orkukerfum hefur umtalsverð umhverfisáhrif í nærsamfélögum, sem gerir þau oft umdeild þar sem þau eru byggð upp, jafnvel þótt það sé gert til þess að hafa jákvæð loftslagsáhrif. Hnattræn loftslagsvernd og staðbundin náttúruvernd geta þannig verið að vegast á sem er áhugaverð áskorun sem öll samfélög í heiminum standa frammi fyrir,“ segir Hörður.

Útflutningur raforku um sæstreng hefur verið ræddur um áratuga skeið, en seinustu árin þykir sá möguleiki orðinn raunhæfari en fyrr. Hörður segir það tvímælalaust auka áhuga á útflutningi á raforku um sæstreng að um er að ræða endurnýjanlega orku, þó svo að fleiri þættir hafi vitanlega áhrif. „Verkefnið hefur lengi verið í skoðun. Það er eftirtektarvert að erlendis er mjög mikið að gerast varðandi flutning á raforku langar leiðir um sæstreng. Við getum nefnt að Norðmenn eru núna að leggja tvo mjög langa strengi, annan til Bretlands og hinn til Þýskalands, og eru jafnvel byrjaðir að huga að öðrum streng til Bretlands. Þessir strengir eru farnir að slaga upp í lengd strengs á milli Íslands og Bretlands. Samfara þessum framkvæmdum byggist upp mikil reynsla sem myndi áreiðanlega nýtast ef ráðist væri í slíka lagningu frá Íslandi, tæknin er að þróast og rekstraröryggið að aukast og vonandi lækkar þá einnig kostnaður. Við fylgjumst náið með þróuninni enda góður valkostur, bæði markaðslega og einnig sem sterkt framlag til loftlagsmála ef ákveðið yrði að ráðast í sæstreng.“

Landsvirkjun náði methagnaði í fyrra, eða sextán milljörðum króna fyrir óinnleysta fjármagnsliði, og raforkuframleiðslan var sömuleiðis meiri en nokkru sinni. Hörður segir horfur góðar í rekstri. „Við tókum tvær nýjar virkjanir að fullu í notkun á þessu ári, annars vegar nýja aflstöð á Þeistareykjum og hins vegar Búrfellsstöð II, sem koma þá inn með auknar tekjur. Síðan höfum við verið að endursemja við okkar viðskiptavini og þeir samningar fara að hafa áhrif á næsta ári, þannig að við teljum ágætis líkur á að það verði áframhaldandi jákvæð þróun í rekstri Landsvirkjunar.“

Vindmyllur orðnar valkostur

Landsvirkjun hefur rekið tvær vindmyllur norðan við Búrfell um nokkurra ára skeið í rannsóknarskyni. Hörður segir Landsvirkjun hafa áhuga á að hasla sér frekari völl í framleiðslu raforku með vindmyllum.

„Annars vegar höfum við lokið umhverfismati í Búrfellslundi ofan við Búrfell, sem við erum nú að láta endurhanna til að koma til móts við athugasemdir vegna ásýndar, og svo er verið að vinna að frumhönnun á vindmyllugarði við Blöndulón. Það hafa ekki verið teknar ákvarðanir um frekari uppbyggingu en við teljum að þetta sé áhugaverð leið til að vinna rafmagn á Íslandi. Við sjáum líka að ýmsir aðrir aðilar hérlendis eru að sýna raforkuvinnslu af þessu tagi áhuga og teljum það jákvætt. Við metum það svo að með núverandi tækniþróun séu vindmyllur orðnar raunhæfur valkostur með öðrum orkukostum og henta í raun mjög vel með vatnsaflinu okkar.”

Fjallað er um málið í Orku & iðnaði, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .