Loftur Þórarinsson
Loftur Þórarinsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Ný stjórn Íslenska Viðskiptaráðsins í Japan var kosin í dag, 29.nóvember, á aðalfundi ráðsins. Loftur Þórarinsson verkefnastjóri í endurnýjanlegum orkuverkefnum hjá Schneider Electric og ráðgjafi var kjörinn formaður en Loftur tekur við af fráfarandi formanni, Bolla Thoroddsen, framkvæmdastjóra Takanawa, sem hefur verið formaður sl. sex ár.

Shoko Nireki framkvæmdastjóri Össur Japan var kjörin varaformaður ráðsins en það er í fyrsta skipti sem kona gegnir þeirri stöðu. Aðrir stjórnarmenn voru kosin þau Akiko Hasegawa, fyrrv. viðskiptafulltrúi íslenska sendiráðsins í Japan, Árni G. Hauksson, frumkvöðull, Ayako Sasajima, framkvæmdastjóri Tókýó skrifstofu Takanawa, Hirotaka Ueno, forstjóri Cross Alliance Group, og Kári Sturlaugsson sölustjóri hjá Icelandic Japan.

Kynjajafnfrétti náð sem er fátítt í Japan

Konur eru því um helmingur stjórnar ráðsins, sem hefur ekki gerst áður, en það er mikið fagnaðarefni og fátítt í Japan þar sem konur eru almennt mun færri en karlar í stjórnum fyrirtækja og samtaka. Manabu Fukuda fráfarandi varaformaður ráðsins var kjörinn aðalritari og Halldór Elís Ólafsson viðskiptafulltrúi sendiráðs Íslands í Japan, var skipaður framkvæmdastjóri.

Fundurinn fór fram í sendiráði Íslands í Tókýó, en sendiráðið hefur umsjón með starfi ráðsins. Heiðursformaður ráðsins er Elín Flygenring, sendiherra Íslands í Japan. Þess má geta að hún er fyrsta konan sem gegnir stöðu sendiherra Íslands í Japan, frá því sendiráðið var stofnað árið 2003.

Samið um tvísköttun, vinnudvöl og loftferðasamninga

Meðal atriða sem nýkjörin stjórn þakkar fráfarandi er undirritun tvísköttunarsamnings Íslands og Japans í janúar 2018, samningi um tímabundna vinnudvöl ungs fólks, í báðum löndum, í maí 2018, og samkomulagi sem greiðir fyrir beinu áætlunarflugi milli Íslands og Japans frá og með janúar 2019.

Ráðið hefur á árinu ennfremur beitt sér fyrir skýrari reglum varðandi atvinnuleyfi Japana á Íslandi. Ráðið fagnar jafnframt upphafi tvíhliða efnahagssamráðs milli Íslands og Japans, m.a. um mögulegan fríverslunarsamning, en samráðið hófst um mitt ár 2019 í Tókýó. Þakkar ráðið ráðamönnum á Íslandi og Japan fyrir árangurinn.

Á aðalfundi ráðsins í dag var samþykkt að Viðskiptaráðið myndi halda áfram að vinna að því að ríkin ljúki gerð loftferðasamnings og fríverslunarsamnings. Frá síðasta aðalfundi árið 2017 hafa verið haldnir fjölmennir opnir kynningafundir og minni fundir japanskra og íslenskra ráðherra, ráðamanna og fyrirtækja.

Má þar nefna heimsókn viðskiptasendinefndar frá Íslandi þ.s. 9 fyrirtæki komu með Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra Íslands í maí 2019, heimsókn Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í september 2018, heimsókn Lilju D. Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra í maí 2019 og nú síðast heimsókn forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessonar og Frú Elizu Reid í október 2019.

Starfað frá árinu 2003

Íslenska Viðskiptaráðið í Japan hyggst halda áfram að styðja og efla vináttu og viðskiptatengsl þjóðanna og vonast til þess að fleiri íslensk fyrirtæki sjái tækifæri í samvinnu við japönsk fyrirtæki. Ráðið var stofnað árið 2003 í því skyni að stuðla að auknum viðskiptum milli Íslands og Japans.

Íslenska viðskiptaráðið er auk íslenska sendiráðsins helsti fulltrúi íslenskra viðskiptahagsmuna í Japan. Viðskiptaráðið mun starfa eins og kostur er með japanska viðskiptaráðinu á Íslandi og sendiráði Íslands í Japan við að efla viðskipta- og fjárfestingaumhverfi fyrir íslensk fyrirtæki í Japan. Viðskiptaráðið starfar einnig náið með öðrum erlendum viðskiptaráðum í Japan og er meðlimur Evrópska viðskiptaráðsins í Japan.

Viðskiptaráðið er skipað yfir þrjátíu fulltrúum, m.a. frá nokkrum af stærstu fyrirtækjum Japans og Íslands. Þar má nefna Toyota Tsusho, eitt af stærstu fjárfestingafyrirtækjum Japans, Fuji Electric og Mitsubishi Hitachi Power Systems, tvö af stærstu orkuframleiðslubúnaðar fyrirtækjum heims, Maruha Nichiro, stærsta sjávarútvegsfyrirtæki heims.

Stór íslensk fyrirtæki eins og Icelandic Japan, Icelandair, Eimskip, Össur, Brim, umboðsaðilar Hampiðjunnar eiga einnig fulltrúa í ráðinu. Íslenska Viðskiptaráðið í Japan vinnur náið með öðrum viðskiptaráðum í Japan, þá helst norrænu viðskiptaráðunum, en með þeim eru reglulega haldnir viðburðir og náið samstarf milli stjórna ráðanna.

Japan hefur um áratugaskeið verið einn helsti útflutningsmarkaður Íslands í Asíu, og mikilvægur samstarfsaðili Íslands á alþjóðavettvangi. Árið 2016 fögnuðu ríkin 60 ára stjórnmálasambandi. Viðskiptatengsl Japans og Íslands hafa sjaldan verið meiri.

Fleiri og fleiri íslensk fyrirtæki eru að hefja starfsemi í Japan eða í samstarfi við japönsk fyrirtæki. M.a. vegna þessarar jákvæðu þróunar var stofnað á árið 2017 Japanska-íslenska viðskiptaráðið á Íslandi sem mörg af stærstu fyrirtækjum Íslands eru aðilar. Sumarið 2020 munu fara fram í Tókýó Ólympíuleikar og Paralympics.