Bresk stjórnvöld lýstu því yfir í gær að skorið yrði á öll tengsl við Írana sökum þess að fimmtán breskir hermenn eru enn í haldi stjórnvalda í Teheran. Íranar handtóku hermennina á dögunum og saka þá um landhelgisbrot. Afstaða Breta felur meðal annars í sér að þeir muni ekki eiga í tvíhliða tengslum við klerkastjórnina vegna deilna um kjarnorkuáform hennar.

Tony Blair forsætisráðherra lýsti því yfir í þinginu í gær að stjórnvöld hafi krafið Írana um að hermennirnir yrðu látnir umsvifalaust úr haldi; Íranar hafi ekki fallist á þá kröfu og því væri eina úrræðið að auka þrýsting á klerkastjórnina til þess að koma henni í skilning um að hún stæði einangruð á alþjóðavettvangi í deilunni. Stjórnvöld í Íran lýstu því yfir í gær að einum fanganna - konunni í hópnum - yrði sleppt fljótlega. Einnig dró utanríkisráðherra landsins, Manoucher Mottaki, úr spennunni og sagði ekki útilokað að atvikið væri byggt á misskilningi en ítrekaði þó að hermennirnir hefðu rofið íranska lögsögu.

Íranskir hermenn handsömuðu Bretana fyrir helgi en stjórnvöld í Teheran fullyrða að þeir hafi brotið landhelgi Írans "á grafalvarlegan hátt." Kæra á hendur hermönnunum vegna landhelgisbrotsins hefur ekki verið útilokuð. Bresk stjórnvöld hafna ásökunum um að þeirra menn hafi brotið landhelgi og birtu í gær upplýsingar úr staðsetningatækjum sem sýndu að hermennirnir hafi verið 1,7 sjómílur inn í íraskri landhelgi, en hermennirnir voru að störfum í Írak í umboði Sameinuðu þjóðanna. Margaret Beckett utanríkisráðherra segir engum vafa undirorpið um staðsetningu þeirra þegar atvikið átti sér stað. Hún benti ennfremur á að hafi hermennirnir rofið íranska lögsögu þá kveði alþjóðalög um að eftirlitsmenn þeirra hafi átt að krefjast brottfarar þeirra.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.