Maður á rétt til bóta úr málskostnaðartryggingu sinni sökum upplýsinga sem vátryggingafélag hans gaf honum þegar málið var höfðað. Tryggingafélagið hafði fallist á að „koma til móts við“ manninn og móður hans vegna málsins en síðar bakkað með það.

Mæðginin áttu sumarbústað hér á landi sem þau leigðu út í heimagistingu. Af þeim sökum hækkaði sveitarfélagið fasteignagjöld á sumarhúsið og rataði sú deila fyrir yfirskattanefnd og síðar dómstóla. Mæðginin voru með réttaraðstoðartryggingu í heimilistryggingu sinni en samkvæmt undanþáguskilmálum hennar gilti tryggingin ekki um málarekstur sem varðaði deilur um fasteign vátryggðs.

Mæðginin sættu sig ekki við það og áttu nokkur samskipti við félagið sér stað. Kom þar meðal annars fram af hálfu félagsins að stundum væri litið framhjá téðu ákvæði skilmálanna ef vátryggður væri með sérstaka sumarhúsatryggingu fyrir bústaðinn. Seinna meir kom fram vilji félagsins til að koma til móts við mæðginin.

„Eins og fram kom í samtali okkar hafði félagið samþykkt að fyrra málið félli undir réttaraðstoðartryggingu þrátt fyrir að mál sem varða vátryggðan sem eiganda fasteignar falli ekki undir trygginguna [samkvæmt skilmálum]. Með sömu rökum og áður, þ.e. í ljósi þess að þið hafið hjá félaginu sumarhúsatryggingu fyrir [bústaðinn] og góða viðskiptasögu fellst félagið á að málið falli undir trygginguna,“ segir í bréfi félagsins til þeirra í apríl 2018.

Eftir að dómur gekk í héraði og málinu var áfrýjað til Landsréttar gegnu bréf á milli mannsins og félagsins. Í svörum félagsins kom fram að það hefði gleymst að það hefði fallist á að greiða trygginguna en að bætur yrðu greiddar til móður mannsins en hún var þinglýstur eigandi 99% af sumarhúsinu. Enginn kostnaður átti síðan að falla á manninn. Þegar maðurinn fór fram á að fá sinn skerf greiddan úr tryggingunni hafnaði félagið því hins vegar.

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar í vátryggingamálum sagði að yfirlýsing félagsins, um að það væri „hugsun félagsins að enginn lögmannskostnaður myndi falla á [manninn]“, væri afdráttarlaus og ekki í neinu samhengi við fyrri samskipti. Tryggingafélög yrðu að vera skýr um það með hvaða hætti þau hygðust víkja frá skilmálum.

Sökum þess hve afdráttarlaus yfirlýsingin var var það niðurstaðan að félaginu bæri að bæta manninum þann kostnað sem á hann féll. Þar sem samþykki lá ekki fyrir um að nefndin tæki afstöðu til fjárhæðar bótanna var það ekki gert og látið nægja að staðfesta bótaskyldu félagsins.