Warner Chappell Music (WCM), útgáfufyrirtæki innan Warner Music Group samsteypunnar, hefur keypt útgáfurétt að tónlistarsafni David Bowie. Þetta kemur fram í grein hjá Guardian . Samkvæmt heimildum Variety hljóðar samningurinn upp á 250 milljónir dala eða um 33 milljarða króna, en útgáfufyrirtækið hefur nýlega lokið 535 milljóna dala skuldabréfaútgáfu til að fjármagna kaupin.

Warner mun eignast útgáfuréttinn að öllum lögum Bowie frá árinu 1968, en hann lést árið 2016. Fyrirtækið mun þannig afla tekna í hvert skipti sem lög Bowie eru spiluð í auglýsingum, útvarpi, kvikmyndum eða sjónvarpsþáttum.

Bowie gaf út sinn fyrsta slagara árið 1969 með laginu „Space Oddity“. Síðasta plata listamannsins, „Blackstar“, kom út þann 8. janúar árið 2016 á 69. afmælisdegi Bowie, aðeins tveimur dögum áður en hann lést.

Sjá einnig: Springsteen selur fyrir 65 milljarða

Mikið hefur verið um slíka samninga að undanförnu en í desembermánuði síðastliðnum seldi Bruce Springsteen útgáfuréttinn að tónlistarsafni sínu til Sony fyrir 500 milljónir dala eða um 65 milljarða króna. Talið er að fjárhæðin sé sú hæsta meðal þekktustu tónlistarmanna heims sem hafa farið sömu leið upp á síðkastið.

Bob Dylan hefur einnig selt tónlistarsafn sitt fyrir um 300 milljónir dala og Neil Young seldi 50% eignarhlut í sínum verkum fyrir um 150 milljónir dala. Einhverjir meðlima hljómsveitarinnar Fleetwood Mac hafa farið sömu leið og franski plötusnúðurinn David Guetta seldi útgáfuréttinn að sínum verkum fyrir hundrað milljónir dala síðastliðið sumar.