Hæstiréttur Íslands er mun líklegri til að fallast á að sett lög frá Alþingi séu andstæð stjórnarskrá heldur en æðstu dómstólar Danmerkur og Noregs hvað þarlend lög varðar. Þetta er meðal niðurstaðna í meistararitgerð Sindra M Stephensen við lagadeild Háskóla Íslands sem fjallar um mun á eignarnámi og sköttum.

Þar að auki virðist sem íslendingar séu iðnari við að draga lögmæti lagasetningar í efa á þeim forsendum að hún brjóti gegn stjórnarskrá. Sigurður Líndal prófessor segir þessar niðurstöður ekki koma sér á óvart.

Sindri segir að af dómafordæmum Hæstaréttar megi ráða að lögskýringar réttarins séu gjarnan breytilegar. Það hefur það í för með sér að inntak stjórnarskrárákvæða er oft háð ytri aðstæðum í þjóðfélaginu. Sigurður Líndal tekur undir þessa ályktun og segir Hæstarétt „ef til vill djarfari í sínum lögskýringum heldur en Hæstiréttur Danmerkur“.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.