Friðbert Traustason formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja segir höggið af uppsögnum þeirra 100 starfsmanna Arion banka sem Viðskiptablaðið greindi frá í morgun vera skelfilegt. Hann segir bankanum stillt upp við vegg vegna skráningar í kauphöll sem geri lög um hópuppsagnir tilgangslaust plagg. Löggjafinn þurfi nú að skoða vel hvort eigi að ganga framar.

„Þetta eru fleiri en lekið var þarna fyrir helgi, en inní þessari tölu eru reyndar samningar við bæði fólk sem er að fara á eftirlaun og eru á aldrinum 65 til 69 ára og samningar við ýmsa stjórnendur sem hafa verið að hætta svo inní þessari tölu er þónokkur hópur sem vissi þetta fyrir einhverjum dögum eða vikum síðan,“ segir Friðbert og vísaði þar í fréttir frá síðustu viku um að bankinn hygðist segja upp 80 manns .

Í kjölfarið hafði Friðbert fengið þær upplýsingar innan úr bankanum fyrir helgi að kvitturinn um uppsagnirnar væru úr lausu loft gripnar . Spurður hvort það sé ekki vont að bankinn komi ekki hreint fram og gangist við sannleikanum játar hann það en segir sem honum sýnist bankinn ekki geta annað.

„Bankanum er stillt upp við vegg gagnvart því að eiga lögbundið samráð við starfsmenn eins og ætlast er til í lögum um hópuppsagnir, af því að hann er skráður í kauphöll. Þá fer maður að spyrja sig um lög almennt, eins og lög um hópuppsagnir og annað, hvað gengur ofar, skráning í kauphöll, eða almenn lög sem gilda á vinnumarkaði. Það þarf að skoða núna mjög alvarlega,“ segir Friðbert

„Að mínu mati eru lög um hópuppsagnir orðnar algerlega tilgangslaust plagg hvað varðar fyrirtæki sem eru skráð í kauphöll, því þau verða að tilkynna hvað þau gera nákvæmlega á sama tíma til allra, svo þetta er eitthvað sem löggjafinn þarf að skoða. Ef svona stórfyrirtæki ætla sér að hagræða í rekstri með hópuppsögnum, þá kveða lögin á um ákveðið ferli, meðal annars að leitað sé eins margra leiða og hægt er til að fækka uppsögnunum, og það séu útskýringar af hverju fyrirtækið fari í þær og stöðu fyrirtækisins. En núna vilja alla vega einhverjir lögmenn skýra það þannig að þessi lög um hópuppsagnir gangi ekki upp þegar um er að ræða fyrirtæki sem eru skráð í kauphöll.“