Frumvarp til laga um breytingar á lögum um fármálafyritæki voru samþykkt á Alþingi fimmtudaginn síðastliðinn. Breytingarnar miða að mestu að því að innleiða nýtt regluverk Evrópusambandsins um fjármálafyrirtæki. Það sem hefur verið einna umdeildast er hluti frumvarpsins sem snýr að kaupaukum starfsmanna fjármálafyrirtækja en þeir geta að hámarki verið 25% af föstum árslaunum. Í Evrópska regluverkinu sem lögin miða við geta þau verið allt að 100% af árslaunum og hluthafafundur getur samþykkt kaupauka sem eru allt að 200% af árslaunum starfsmanna. Vildu m.a. Samtök fjármálafyrirtækja taka að fullu upp evrópska regluverkið en í nýsamþykktum lögum voru engar breytingar gerðar á reglum um kaupauka starfsmanna fjármálafyrirtækja.

Að sögn Hannesar Frímanns Hrólfssonar, forstjóra verðbréfafyrirtækisins Virðingar, eru núgildandi lög til þess fallin að ýta undir launaskrið hjá starfsmönnum fjármálafyrirtækja og geta aukið rekstraráhættu minni fyrirtækja. „Með núgildandi lögum er ekki hægt að haga kjörum eftir árangri,“ segir hann. „Bankarnir hafa ýtt undir launaskrið hjá starfsmönnum fjármálafyrirtækja og það er lítið annað fyrir smærri fyrirtæki að gera en að halda í við þau laun. Ég hef alltaf talið það æskilegt að það séu einhverjar hömlur á viðskiptabönkunum, sem eru kerfislega mikilvægar stofnanir. Áhættutaka í bönkunum getur valdið samfélagslegum skaða en áhættutaka í verðbréfafyrirtækjum getur ekki valdið neinum skaða nema hluthöfum þeirra. Ríkið þarf aldrei að hlaupa undir bagga þegar verðbréfafyrirtæki fer á hausinn.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .