Þann 1. janúar næst komandi taka í gildi lög um sameignarfélög en engin heildarlög hafa verið sett fyrr á Íslandi um slík félög heldur hafa firmalög og nokkur önnur lög geymt sérstök ákvæði um félögin, m.a. um skráningu tiltekinna upplýsinga um þau í firmaskrá.

Í frétt á vef viðskiptaráðuneytisins segir að vægi sameignarfélaga hafi minnkað nokkuð samhliða mikilli fjölgun einkahlutafélaga á síðustu árum. Fjöldi sameignarfélaga í árslok 2004 var rösklega 2.400 en til samanburðar var fjöldi einkahlutafélaga rösklega 21.000 og fjöldi hlutafélaga tæplega 1000. Sökum ábendingar frá viðskiptalífsnefnd var á sínum tíma talið rétt að semja frumvarp til heildarlaga til að skýra reglur um innbyrðis samband félagsmanna í sameignarfélögum og stöðu viðsemjenda þeirra.

Lögin byggjast ekki á reglum Evrópska efnahagssvæðisins enda finnast þar eingöngu reglur um evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög sem eru ein tegund sameignarfélaga. Lög hafa verið sett um þau hér á landi. Hliðsjón var hins vegar höfð af norsku félagalögunum og jafnframt dönskum sameignarfélagarétti en engin heildarlög eru um þetta efni í Danmörku, samkvæmt því sem segir í fréttinni.