Alþingi samþykkti í dag frumvarp Guðlaugs Þór Þórðarsonar um sjúkratryggingar en frumvarpið felur meðal annars í sér að sett verði á stofn sérstök sjúkratryggingastofnun sem mun hafa það markmið að sjáum kaup og samninga á heilbrigðisþjónustu.

Guðlaugur Þór sagði í ræðu á Alþingi í dag að markmið laganna væri að allir Íslendingar geti notið heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða og að samþykkt frumvarpsins myndi auðvelda það verkefni.

Frumvarpið var samþykkt með 36 atkvæðum stjórnarflokkanna. Þingflokkur Framsóknarflokksins sat hjá við atkvæðagreiðslu og sagði Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður þingflokksins að flokkurinn treysti sér ekki til að taka ábyrgð á grundvallarbreytingum þeim er getið væri í frumvarpinu og hvernig framkvæmdavaldið myndi fara með framkvæmd laganna.

Þingmenn Vinstri grænna greiddu atkvæði gegn meginatriðum frumvarpsins en miklar umræður hafa átt sér stað á Alþingi í gær og í dag um frumvarpið. Þingmenn Vinstri grænna hafa sagt að hér sé um dulbúna einkavæðingu sé að ræða. Breytingartillögur VG á frumvarpinu voru allar felldar.