Þótt ekki séu neinar svokallaðar fjármálasamsteypur starfandi á í dag á Íslandi telur fjármálaráðuneytið nauðsynlegt að til staðar sé löggjöf um viðbótareftirlit með þeim.

Löggjöfin og reglurnar sem hafa verið í gildi um málin síðustu ár byggja á Evróputilskipunum.

„Fjármálasamsteypa kallast það þegar fjármálasamstæður á sviði fjármála og vátrygginga starfa saman,“ segir í frétt ráðuneytisins um drög að frumvarpi um málið sem byggir á Evróputilskipunum.

Sérfræðingar frá SFF í starfshópnum

„Frumvarpið byggir á tilskipunum 2002/87/EB, um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum, og tilskipun 2011/89/ESB sem breytti fyrri tilskipuninni.“

Hefur starfshópur á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins gert drög að frumvarpi til laga sem birtar eru til umsagnar, en í starfshópnum eru sérfræðingar frá ráðuneytinu, Fjármálaeftirlitinu og Samtökum fjármálafyrirtækja.

„Fjármálaeftirlitið setti reglur um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum nr. 165/2014 sem voru byggðar á ofangreindum tilskipunum en heppilegra er að kröfur til fjármálasamsteypa hafi stoð í lögum ásamt reglum um Fjármálaeftirlitið,“ segir í frétt ráðuneytisins.

Engin starfsemi á landinu sem fellur undir lögin

„Ekki eru starfandi neinar fjármálasamsteypur í dag sem myndu falla undir lögin en nauðsynlegt er að til staðar sé löggjöf um viðbótareftirlit með þeim.

Það getur t.a.m. komið í veg fyrir að fjármálasamsteypur gætu veikt stöðu fjármálakerfisins ef þær lentu í fjárhagserfiðleikum.

Einnig er mikilvægt að eftirlit sé með samsteypum sem starfa í fleiri en einu ríki og er frumvarpið liður í því að samræma reglur á EES-svæðinu að því leyti.“