Alþingi hefur samþykkt frumvarp forsætisráðherra sem felur í sér heildarendurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands. Með lögunum er lagður nýr grunnur að þeirri umbótavinnu og endurreisn innan stjórnsýslunar sem staðið hefur yfir allt frá hruni efnahagskerfisins haustið 2008. Breytingar sem í lögunum felast taka m.a. mið af þeirri þungu ádeilu sem stjórnsýsla ráðuneyta og stofnana á sviði efnahagsmála mátti sæta í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Í þeirri skýrslu og skýrslu þingmannanefndar er fjallaði um starf rannsóknarnefndar Alþingis kom fram skýrt ákall um að lög um Stjórnarráð Íslands yrðu endurskoðuð. Eru ákvæði hinna nýju laga m.a. byggð á tillögum sem þar komu fram.

Jafnframt byggja lögin að hluta til á tillögum starfshóps sem forsætisráðherra skipaði um viðbrögð við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og loks eru lagðar til til grundvallar tillögur nefndar um endurskoðun á lögum um Stjórnarráð Íslands sem birtar voru í skýrslunni „Samhent stjórnsýsla“ sem gefin var út í desember 2010. Breytingarnar sem felast í lögunum byggja þannig á ítarlegri umfjöllun og mikilli undirbúningsvinnu fjölmargra aðila. Breytingarnar marka ákveðin þáttaskil í sögu Stjórnarráðs Íslands en fyrri tilraunir til heildarendurskoðunar á eldri lögum sem sett voru árið 1969 hafa ekki náð fram að ganga.

Helstu breytingar sem felast í lögunum eru eftirfarandi: Undirstrikað er að ráðherrar sækja umboð sitt til Alþingis í samræmi við þingræðisregluna sem er grundvallarregla í stjórnskipun landsins. Verulega er aukið svigrúm stjórnvalda til að ákveða hvaða ráðuneyti skuli starfrækt á hverjum tíma. Mælt er fyrir um að ákvörðun um fjölda ráðuneyta og heiti þeirra skuli ákveðin með forsetaúrskurði, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar, samkvæmt tillögu forsætisráðherra.

Áður en breytingar eru gerðar á ráðuneytisskipan verður þó skylt að bera fyrirhugaða ákvörðun undir Alþingi í formi þingsályktunartillögu sem skal tekin til umræðu og afgreiðslu áður en forsetaúrskurður er gefinn út.

Með breytingunni er skerpt á skilum á milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds og möguleikar stjórnvalda á hverjum tíma til að skipuleggja Stjórnarráðið þannig að það fái sem best sinnt skyldum sínum í samræmi við aðstæður og áherslur sem uppi eru á hverjum tíma auknir.

Er fyrirkomulagið með þessum breytingum fært nær því sem tíðkast í nágrannalöndum okkar þar sem þingræðisfyrirkomulag er við lýði svo sem í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Heiti ráðherra og ráðuneyta í öðrum lögum fellt brott. Með breytingunni er undirstrikað, sem þó hefur ekki verið umdeilt, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar, að ákvörðunarvald um það hvaða verkefni skuli heyra undir hvert ráðuneyti hvílir hjá stjórnvöldum en ekki löggjafarvaldinu.

Sú löggjafarframkvæmd að tilgreina heiti ráðherra og ráðuneyta í einstökum lögum hefur hins vegar torveldað flutning stjórnarmálefna á milli ráðuneyta þar sem menn hafa jafnan talið nauðsynlegt að gæta þess að ekki skapaðist ósamræmi á milli stjórnvaldsfyrirmæla um skiptingu starfa á milli ráðherra og settra laga frá Alþingi. Með breytingunni ætti að vera tryggt að slíkt ósamræmi komi ekki upp og eykur það sveigjanleika og möguleika stjórnvalda til að bregðast við og haga verkaskiptingu á milli ráðuneyta með þeim hætti sem skynsamlegast þykir á hverjum tíma. Þó ber jafnan að gæta þess, svo sem sjálfsagt er, að eðlislík málefni séu ekki sundur slitin og er það áréttað í lögunum.

Sveigjanleiki í ráðherraskipan aukinn. Felld er brott sú regla að hvert ráðuneyti skuli lagt óskipt til eins og sama ráðherra sem felur í sér að heimilt verður að skipa ráðherra til að fara með tiltekna málaflokka innan ráðuneytis enda þótt ráðuneytið heyri að öðru leyti undir annan ráðherra.

Kveðið er á um skyldu ráðherra til að leitast við að samhæfa stefnu sína og aðgerðir þegar málefni og málefnasvið þeirra skarast. Hlutverk og skylda forsætisráðherra til að hafa frumkvæði að samhæfingu starfa á milli ráðherra ef á þarf að halda fest í lög. Jafnframt er kveðið á um hlutverk forsætisráðherra og forsætisráðuneytisins í tengslum við gerð ýmissa leiðbeininga og setningu reglna til að samhæfa og samræma störf ráðuneyta.

Skilgreint er nánar hvaða málefni ráðherrum er skylt að bera upp í ríkisstjórn. Miðar breytingin að því að tryggja að öll mikilvæg stjórnarmálefni komi til umræðu í ríkisstjórn en á því var, eins og kunnugt er, misbrestur í aðdraganda efnahagshrunsins. Breytingarnar eru jafnframt liður í því að auka samhæfingu og samstarf milli ráðherra í ríkisstjórn. Kveðið er á um störf og starfsemi ráðherranefnda.

Stjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra með undirstofnunum, sjálfstæðum stofnunum og eignum ríkisins eru lögfestar.