Alþingi samþykkti í dag lög um innleiðingu á CSDR reglugerð ESB um verðbréfauppgjör og um verðbréfamiðstöðvar. CSDR sem tók gildi innan ESB haustið 2014 var fyrsta samræmda reglugerðin sem tekur til reksturs verðbréfamiðstöðva og verðbréfauppgjöra en reglugerðinni er ætlað að auka skilvirkni og öryggi í uppgjöri verðbréfaviðskipta innan Evrópu auk þess að opna fyrir samkeppni milli landa.

Innleiðing reglugerðarinnar mun breyta umgjörð um starfsemi verðbréfamiðstöðva töluvert og felur í sér auknar kröfur til þeirra en einnig varðandi uppgjör fjármálagerninga og verðbréfauppgjörskerfa.

Innleiðing reglugerðarinnar mun því hafa töluverð áhrif á Nasdaq verðbréfamiðstöð, systurfélag Nasdaq Iceland (Kauphallarinnar), en félagið mun í lok maí næstkomandi sameinast verðbréfamiðstöð Nasdaq í Evrópu, Nasdaq CSD, sem var sú fyrsta til að hljóta nýtt starfsleyfi á grundvelli CSDR.

Magnús Krist­inn Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Nasdaq verðbréfamiðstöðvar, segir í samtali við Viðskiptablaðið samþykkt laganna sé forsenda þess að hægt sé að gjörbylta umgjörð um uppgjör verðbréfa.

„Samþykki CSDR var forsenda þess að hægt væri að ljúka þeirri vegferð sem við erum á til að gjörbylta umgjörð um verðbréfauppgjör með það fyrir augum að styrkja stoðir íslensks verðbréfamarkaðar. Við hlökkum til að vinna að því með viðskiptavinum okkar sem og að kynna fyrir þeim fyrsta flokks þjónustu og vörur sem koma til við lok verkefnisins í maí. Jafnframt munum við leggja áherslu á að eiga í góðu samtali við viðskiptavini okkar varðandi tækifæri til að þróa nýjar vörur.”