Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag að leggja fyrir Alþingi lagafrumvarp um að fresta til 15. september verkfallsaðgerðum sem Sjómannasambands Íslands hóf á Herjólfi 5. mars. Með verkfallsaðgerðum er átt við vinnustöðvanir, verkbönn, verkföll og aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákveða. Frumvarpið verður nú sent þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna til afgreiðslu og ráðgert er að leggja það fram á Alþingi í dag og óska þess að unnt verði að afgreiða það samdægurs.

Í frumvarpinu er verkfallsaðgerðum frestað og aðilum falið að nýta þann tíma til að ná samkomulagi á farsælan hátt en ekki farin sú leið að senda kjaradeiluna í gerðardóm. Það er sameiginlegt fyrri inngripum Alþingis í kjaradeilur að með þeim hefur þurft að forða efnahagslegu tjóni eða að lögmæltum verkefnum hins opinbera verið stefnt í hættu.