Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur samþykkt lögbannskröfu á hendur fjórum af fimm fyrrum starfsmönnum SÍF/Iceland Seafood International sem sögðu upp störfum fyrir áramót og stofnuðu fisksölufyrirtæki sem ætlað er að fara í beina samkeppni við SÍF og Iceland Seafood International.

Lagt er lögbann við því að starfsmennirnir fjórir ráði sig í þjónustu Seafood Union ehf. eða haldi við slíkri ráðningu, hvort heldur er sem launþegar, ráðgjafar, stjórnarmenn eða sjálfstæðir verktakar eða taki á nokkurn annan hátt þátt í starfsemi Seafood Union ehf. til 30. júní 2005. Kröfu um lögbann á einn starfsmann var hafnað en vegna tæknilegra atriða taldi sýslumaður ekki ráðlegt að leggja lögbann á störf hans. Verður þeirri niðurstöðu vísað til héraðsdóms segir í tilkynningu frá SIF.

Stjórnendur SÍF og Iceland Seafood telja þessa niðurstöðu sýslumanns eðlilega og sanngjarna og renni hún stoðum undir þau sjónarmið að viðkomandi starfsmenn hafi brotið gegn ráðningarsamningum sínum og skuldbindingum með því að hefja samkeppni við félagið. Enn fremur að tímasetning og umgjörð uppsagna þessara starfsmanna hafi verið með þeim hætti að markmiðið hafi verið að reyna að skaða félagið og dótturfélög þess. Stjórnendur SÍF/Icleand Seafood International benda einnig á að ólíðandi sé að starfsmenn noti tíma sinn í vinnu fyrir félögin til að undirbúa samkeppni við þau.

Alls sögðu átta starfsmenn SÍF/Iceland Seafood International upp störfum um áramót og fóru í samkeppni við fyrrum vinnuveitanda sinn. Var krafist lögbanns á hendur fimm þeirra. Stjórnendur SÍF hafa ítrekað óskað eftir viðræðum við starfsmennina vegna starfsloka þeirra hjá félaginu en þeir hafa alfarið hafnað þeim óskum.

Lögbann er bráðabirgðaráðstöfun og réttarágreiningur aðilanna verður endanlega leystur fyrir dómstólum.