Héraðsdómur Reykjanes hefur staðfest lögbann og viðurkenningu á bótaskyldu sem Samtök tónskálda og eigenda flutningsréttar fengu 19. nóvember 2007 gegn Istorrent ehf. og Svavari Lútherssyni.

Stefndi var hins vegar sýknaður af  kröfu um að bannað væri með dómi að gera notendum vefsíðunnar www.torrent.is kleift að fá aðgang að og deila innbyrðis hljóð- og myndefni sem hefur að geyma tónlist sem umbjóðendur stefnanda eiga höfundarétt að án samþykkis rétthafa. Af þessari niðurstöðu leiðir að engin efni eru til að taka til greina kröfur stefndu um skaðabætur úr hendi stefnanda og er þeim því hafnað segir í dómnum.

Samkvæmt þessum málsúrslitum og með hliðsjón af 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndu óskipt gert að greiða stefnanda hluta málskostnaðar hans. Þykir hann hæfilega ákveðinn 1.000.000 krónur.

Viðurkennd er bótaskylda stefndu gagnvart stefnanda.