Vatnsátöppunarfyrirtækið Icelandic Water Holdings, sem er í eigu Jóns Ólafssonar, fékk lögbann á notkun fyrirtækisins Iceland Glacier Wonders á vörumerkinu Iceland Glacier í lok síðasta árs. Héraðsdómur Reykjavíkur hefur nú fellt lögbannið úr gildi.

Iceland Glacier Wonders er í eigu hollenska fjárfestisins Otto Spork. Rekur það átöppunarverksmiðju í Vestmannaeyjum og framleiðir þar vatn á flöskur undir merkjum Sno Iceland Glacier Water. Spork stefndi á að reka átöppunarverksmiðju á Rifi á Snæfellsnesi árið 2007. Í desember árið 2011 var svo fyrirtæki Spork hér á landi úrskurðað gjaldþrota. Áformin fóru út um þúfur og missti fyrirtækið vatnsréttindi sín til 95 ára við Snæfellsbæ.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að notkun Iceland Glacier Wonders á vörumerkjunum Iceland Glacier feli ekki í sér brot á vörumerkjarétti stefnanda og þar sem stefnandi hafi ekki fært sönnur fyrir því að hann eigi þann lögvarða rétt sem lögbann var lagt við röskun á séu ekki uppfyllt skilyrði laga um kyrrsetningu og lögbann. Var því lögbannsgerð sýslumanns felld úr gildi.