Sýslumaðurinn í Reykjavík hafnaði í dag beiðni Iceland Express um lögbann á að Matthías Imsland fyrrverandi forstjóri félagsins starfi með nýju félagi í flugrekstri í samkeppni við Iceland Express næstu 30 mánuði.

Í tilkynningu frá Iceland Express kemur fram að úrskurðurinn verði kærður til Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem Iceland Express mun fara fram á að honum verði hrundið.

Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express.
Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Þá segir að Matthías sé enn á launum á uppsagnarfresti frá Iceland Express. Honum var síðast greidd laun upp á aðra milljón króna um þessi mánaðamót. Þá sé hann með síma, fartölvu og heimatölvu frá fyrirtækinu og fái að auki greiddan bifreiðastyrk. Uppsagnarfrestur hans rennur ekki út fyrr en 1. apríl á næsta ári.

Í tilkynningunni segir ennfremru: „Matthías Imsland hefur í sínum fórum yfirgripsmiklar upplýsingar um starfsemi Iceland Express sem og er eðlilegt að stór hluti þeirra verði að teljast viðskiptaleyndarmál. Það er skoðun stjórnar Iceland Express að með því að vinna að stofnun annars félags og vera í sams konar rekstri á uppsagnartímanum og vera hlutiafi í því, sé Matthías að brjóta gegn ráðningarsamingi sínum. Reyndar er stjórn félagsns þeirrar skoðunar að samkvæmt ráðningarsamningi sé Matthíasi ekki heimilt að koma að sams konar rekstri í 24 mánuði að uppsagnarfresti liðnum. Þá gætu aðrir aðilar sem koma að slíkum rekstri með Matthíasi og nýta sér upplýsingar um rekstur Iceland Express skapað sér skaðabótaskyldu“.