Héraðsdómur Suðurlands staðfesti í dag kröfu íslenska ríkisins á lögbann við gjaldtöku af gestum á Geysissvæðinu. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fór fram á lögbannið fyrir hönd ríkisins í mars síðastliðnum.

Sýslumaður hafnaði upphaflega beiðninni en sá úrskurður var kærður til héraðsdóms. Héraðsdómur féllst á lögbannið í apríl síðastliðnum og það var staðfest í dag, að því er fram kemur í tilkynningu frá landeigendum á Geysi.

"Niðurstaða héraðsdóms leysir hins vegar ekki það sem málið í raun og veru snýst um, hvernig landeigendur að Geysissvæðinu geta unnið saman að uppbyggingu og verndun svæðisins," segir í tilkynningu frá Landeigendafélagi Geysis.

Þar segir að ríkið sé minnihlutaeigandi að Geysissvæðinu sem sé í óskiptri sameign. Ríkið hafi ekki viljað vera með í stofnun landeigendafélagsins. "Ríkið hefur ekki viljað hafa neitt samstarf við sameigendur sína en hefur frá stofnun félagsins verið upplýst um allar fyrirætlanir þess."